Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir að það þurfi að byggja um tvö þúsund íbúðir á ári hérlendis næstu tíu árin.
Tryggja þurfi að 20 til 25 prósent af þeim verði félagslegar íbúðir, íbúðir fyrir námsmenn eða tekjulága. Hann segist trúa því að hægt verði að ná samkomulagi um slíkt við sveitarfélögin á Stór-Reykjavíkursvæðinu og að allir verði „tilbúnir til þess að leggja sitt að mörkum til að ná þessu sameiginlega markmiði. Vegna þess að undir liggur velferð þjóðarinnar, húsnæðismarkaðurinn og þessir kjarasamningar sem eru framundan.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjórna Kjarnans, við Ásmund Einar í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem frumsýndur verður í kvöld. Þar ræðir hann ítarlega um það hvernig hið opinbera geti komið að því að liðka fyrir gerð kjarasamninga með mögulegum breytingum á skattkerfi, bótakerfum og með aðkomu að sátt um uppbyggingu húsnæðis. Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan.
Fyrir liggur að mjög mikil mismunandi er hversu mikinn þátt sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu taka þátt í uppbyggingu félagslegs húsnæðis.
Kjarninn greindi til að mynda frá því í morgun að 76 prósent slíks á svæðinu sé í Reykjavík. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, kallaði eftir því í 21 í síðustu viku að sett yrðu lög sem skikkuðu önnur sveitarfélög til að sinna þessum hluta og láta ákveðið hlutfall lóða sinna undir uppbyggingu félagslegs húsnæðis.