„Við erum, vil ég meina, búin að leysa hann með þeim aðgerðum sem við erum að ráðast í á Stuðlum á síðustu vikum þannig að það á ekki að þurfa að vísa börnum frá sem koma inn í kerfið.“ Þetta segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, um bráðavanda ungra einstaklinga sem glíma við fíknivanda.
Í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Ásmund Einar í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem frumsýndur var á miðvikudagskvöld ræðir hann um stigvaxandi fíknivanda sem íslenskt samfélag glímir við og skort á meðferðarúrræðum til að takast á við þann vanda. Ein birtingarmynd þeirrar stöðu er að yfir 600 manns bíða nú eftir því að komast í meðferð vegna fíknar. Hægt er að horfa á stiklu úr þættinum hér að neðan.
Stjórnvöld hafa legið undir gagnrýni vegna skorts á meðferðarúrræðum, sérstaklega sérhægðum úrræðum fyrir ungt fólk. Vegna þessa stendur nú yfir undirskriftasöfnun til að þrýsta á stjórnvöld að auka þegar í stað árleg framlög til sjúkrahússins á Vogi um 200 milljónir króna til að útrýma biðlistum eftir áfengis- og vímuefnameðgerð, en þar eru einungis 138 pláss í boði. Það er sama magn og var í boð fyrir slíka meðferð árið 1976.
Þeir sem standa að þessu þjóðarátaki til varnar sjúkrahúsinu Vogi munu svo halda tónleika í kvöld klukkan 20. Þegar þetta er skrifað hafa 11.491 skrifað undir undirskriftarlistann.
Hægt er að horfa á viðtalið við Ásmund Einar í heild sinni hér að neðan.