Gangi kaup Icelandair Group á WOW air eftir má búast við því að flugmiðaverð hækki og að ráðist verði í skipulagsbreytingar innan sameinaðar samstæðu. Slíkum breytingum myndu fylgja samlegðaráhrif sem náð yrði fram með hagræðingu, meðal annars fækkun starfa. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri fréttaskýringu Kjarnans um sameininguna sem birt var í gær.
Morgunblaðið greinir svo frá því í morgun að vegna forgangsréttarákvæðis í samningum við Icelandair gætu félagsmenn í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) átt forgang á flug í flugvélum WOW air. Það myndi þýða að flugmenn sem vinna hjá WOW air yrðu á sama kjarasamningi og flugmenn Icelandair, en sem stendur eru þeir í sér stéttarfélagi. Samkvæmt samningi FÍA við Icelandair getur félagið ekki stofnað sérstakt lágfargjaldaflugfélag þar sem flugmenn fá önnur kjör en þeir sem fljúga fyrir móðurfélagið. Sama hljóti þá að eiga við ef Icelandair yfirtekur slíkt lágfargjaldaflugfélag.
Morgunblaðið segir að það sé erfitt að sjá hvernig sameining félaganna tveggja ætti að ganga upp ef flugmenn WOW air njóti sömu starfskjara og kollegar þeirra hjá Icelandair, þar sem nýting á flugmönnum WOW air sé mun betri eins og stendur.
Icelandair búið að glíma við umtalsverðan vanda
Icelandair hefur sjálft átt í umtalsverðum rekstrarvandræðum undanfarin misseri. Breytingar á leiðarkerfi og markaðsstarfi sem ráðist var í í fyrra reyndust afleitar og vegna fyrstu tveggja fjórðunga ársins voru sendar afkomuviðvaranir vegna þess að niðurstaða þeirra var langt undir væntingum. Þessi staða gerði það að verkum að Björgólfur Jóhannsson, sem hafði verið forstjóri Icelandair í tíu ár, sagði af sér í lok ágúst. Með því vildi hann axla ábyrgð á ofangreindum breytingum, sem teknar höfðu verið á hans vakt.
Það sem var jákvætt var að Icelandair hafði byggt upp umtalsvert eigið fé á síðustu árum og var því ágætlega í stakk búið til að takast á við sveiflur. Eigið fé í lok september var um 70 milljarðar króna, en hafði lækkað um 2,6 milljarða króna það sem af var ári. Þessi staða gerði það að verkum að Icelandair braut skilmála skuldabréfaflokka sem félagið hafði gefið út og er sem stendur í viðræðum við eigendur þeirra um að endursemja vegna þessa. Stærstu hluthafar félagsins eru íslenskir lífeyrissjóðir, en stærsti hluthafinn er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 13,99 prósent hlut.
Töluverð samlegðaráhrif
Viðmælendur Kjarnans segja að það séu töluverð samlegðaráhrif sem skapist við kaupin á WOW air, sem meðal annars verður hægt að ná fram með hagræðingu í starfsmannafjölda. Markaðsstarf síðarnefnda félagsins á netinu sé auk þess mjög gott og bókunarkerfi þess hagkvæmt. En það býst enginn sem við er rætt við öðru en að seglin verði dregin verulega saman, vélum sem eru á leigu verði skilað og starfsfólki fækkað.
Óhjákvæmilegt sé að flugmiðaverð fari í kjölfarið hækkandi. Þá megi búast við því að uppstokkun verði á skipulagi innan Icelandair Group þegar og ef yfirtakan á WOW air gengur í gegn.
Fréttin er að mestu unnin upp úr hliðarefni með fréttaskýringu Kjarnans um kaup Icelandair Group á WOW air sem birtist í gær, föstudag.