Mynd: Wikipedia

Dauðastríð mánuðum saman

Icelandair keypti WOW air í upphafi viku. Kaupverðið er langt frá því verði sem til stóð að fá fyrir helmingshlut í WOW air fyrir tæpum tveimur mánuðum. Um björgunaraðgerð var að ræða sem átti sér skamman aðdraganda.

Það voru ekki margir sem spáðu því, að minnsta kosti opin­ber­lega, að árið 2018 yrði árið sem WOW air myndi fara í greiðslu­þrot. Slíkt mátti að minnsta kosti ekki greina í opin­berri orð­ræðu stjórn­enda félags­ins. Það hafði enda skilað 1,1 millj­arða króna hagn­aði árið 2015 og 4,3 millj­arða króna hagn­aði á árinu 2016. Öll skila­boð sem komu frá Skúla Mog­en­sen, stofn­anda, eig­anda og for­stjóra WOW air, voru á þann veg að frek­ari vöxtur og hagn­aður væri framund­an. Hann sagð­ist frekar hlusta á erlenda reynslu­bolta sem væru mjög upp­rifnir yfir árangri WOW air en „svart­sýn­is­röflið á Ísland­i“.·

Í nóv­em­ber 2017 sendi félagið meira að segja frá sér frétta­til­kynn­ingu þar sem því var haldið fram að rekstur WOW air væri full fjár­magn­aður út árið 2019. Skúli var síðan val­inn við­skipta­maður árs­ins hjá Mark­aði Frétta­blaðs­ins vegna árs­ins 2016.

Skúli var svo mættur í við­tal hjá Bloomberg 27. apríl 2018 þar sem hann sagði að sala á hlut í WOW air kæmi til greina fyrir árs­lok og sá orðrómur gekk að stór alþjóð­leg flug­fé­lög, sér­stak­lega hið þýska Luft­hansa, hefði áhuga.

Það kom ansi mörgum í opna skjöldu þegar WOW air birti rekstr­ar­nið­ur­stöðu sína fyrir árið 2017 í júlí síð­ast­liðn­um. Algjör kúvend­ing hafði orðið á rekstr­inum og tap upp á 2,3 millj­arða króna var stað­reynd. Í frétta­til­kynn­ingu var haft eftir Skúla að vöxtur félags­­ins og fjár­­­fest­ing hafi reynst dýr­­ari en búist var við. „Ytri aðstæður hafa reynst félag­inu krefj­andi, svo sem hækk­­andi olíu­­verð, styrk­ing krón­unn­­ar, dýrt rekstr­­ar­um­hverfi á Íslandi og mikil sam­keppni lyk­il­­mörk­uðum félags­­ins.“

Orðrómur um slæma stöðu

Í kjöl­farið rak hver fréttin aðra um stöðu mála hjá WOW air. Út kvis­að­ist að stjórn­völd væru að fylgj­ast með þróun mála dag frá degi. Katrín Jak­obs­dótt­ir, Sig­urður Ingi Jóhanns­son, Bjarni Bene­dikts­son og Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir voru stans­laust upp­lýst um stöðu mála. Ástæðan var sú að WOW air hafði vaxið svo mik­ið, svo hratt, að mögu­lega var félagið orðið kerf­is­lega mik­il­vægt fyrir íslenskt efna­hags­kerfi. Sér­fræð­ingar á vegum stjórn­valda og Seðla­banka Íslands unnu langa daga við að greina hver áhrifin af því að WOW air myndi lenda í greiðslu­stöðvun yrðu.

Þessi við­brögð voru ekki að ástæðu­lausu. Eigin fé WOW air var komið í 4,5 pró­sent í júní 2018 á sama tíma og elds­neytis­kostn­aður félags­ins var að hækka skarpt í takt við hækkun á heims­mark­aðs­verði á olíu (verð á flug­véla­elds­neyti hækk­aði um 36 pró­sent á fyrri helm­ingi árs­ins 2018), en WOW air hafði ákveðið að verja sig ekk­ert gagn­vart slíkum hækk­unum ólíkt t.d. Icelanda­ir.

Skúli brást við stöð­unni með því að leggja 60 pró­sent hlut sinn í  frakt­flutn­ing­ar­fé­lag­inu Cargo Express inn í WOW air og breyta um tveggja millj­arða króna kröfu sem hann átti á félagið í nýtt hluta­fé. Við þessa breyt­ingu jókst hluta­féð í WOW air um 51 pró­sent. Ein eig­in­legt lausafé jókst ekk­ert, skuldir lækk­uðu bara.

WOW air vant­aði til­finn­an­lega lausafé og það þurfti að fá það hratt.

Vand­ræðin opin­beruð

Um miðjan ágúst birti Kjarn­inn fjár­festa­kynn­ingu sem norska verð­bréfa­fyr­ir­tækið Par­eto Securities hafði útbúið fyrir WOW air vegna skulda­bréfa­út­boðs sem flug­fé­lagið ætl­aði í. Útboðið átti að leysa, að minnsta kosti tíma­bund­ið, mik­inn lausa­fjár­vanda WOW air. Til­boðs­bókin var opnuð 29. ágúst og til stóð að loka henni á tveimur dög­um. Henni var á end­anum ekki lokað fyrr en um þremur vikum síð­ar.

Ríkið ætlaði ekki að grípa inn í með beinum hætti

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarfélagamálaráðherra, sagði í viðtali í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut 27. september síðastliðinn að stjórnvöld hefðu verið að greina hversu stór og kerfislega mikilvæg flugfélögin væri. „Það er auðvitað ánægjulegt að segja frá því að það hefur verið gríðarlegur vöxtur bæði hjá Icelandair og WOW. En það hefur líka orðið gríðarlegur vöxtur í fjölda annarra flugfélaga hvað þeir eru orðnir stórir á markaðinum, bæði með ferðamenn eða okkur sjálf, til Íslands. Og kannski mun stærri en við gerðum okkur grein fyrir.“

Sigurður Ingi sagði að íslensku félögin tvö væru að flytja um 70 prósent allra farþegar sem koma hingað til lands, en erlend flugfélög sem hingað fljúga væru komin með hlutdeild sem væri í kringum 30 prósent. „Við erum klárlega með kerfislega mikilvæg fyrirtæki og það yrði klárlega áfall ef annað fyrirtækið yrði fyrir skakkaföllum. Það yrði efnahagslegt áfall. Þannig að við höfum verið að greina alla þessa þætti og með hvaða hætti við gætum brugðist við. Það er augljóst að það er enginn ábyrgðarsjóður til, engin ríkisábyrgð til þannig að það er ekki hægt að grípa til slíkra hluta. Eðlilegast er auðvitað, eins og allir vonast eftir, að fyrirtæki sem eru á markaði bjargi sér á markaðslegum forsendum.“

Aðspurður hvort að til greina kæmi að ríkið myndi grípa inn og veita íslensku flugfélagi fjármögnun til skemmri eða lengri tíma svaraði Sigurður Ingi því neitandi. „Við höfum talið að það væri miklu eðlilegra að fyrirtæki björguðu sér á markaði og að við myndum leita allra leiða til að hafa innsýn inn í atburðarásina og grípa inn í með eðlilegum hætti.“

Starfs­hópur sem var skip­aður full­trúum frá fjár­mála­ráðu­neyt­inu, for­sæt­is­ráðu­neyt­inu og Seðla­bank­anum vann sviðs­mynda­grein­ing­u á áhrifum falls WOW air á íslenskt efnahagskerfi. Í niðurstöðum hans kom fram að þrot WOW air hefði getað leitt til þess að lands­fram­leiðsla drægist saman um tvö til þrjú pró­sent og gengi krón­unnar veikt­ist um allt að 13 pró­sent á næsta ári.

Á þessum tíma var farið að spyrj­ast út mjög víða að staða félags­ins væri mun við­kvæm­ari en haldið hafði verið fram.Við­mæl­endur Kjarn­ans segja að þannig hafi verið allt frá haustinu 2017, sér­stak­lega eftir að færslu­hirð­inga­fyr­ir­tækið Korta­þjón­ust­an, sem greiddi umtals­verðan hluta af greiðslum sem bár­ust frá við­skipta­vinum vegna ferða sem voru ófarnar strax, lenti í vand­ræðum og eig­enda­skipt­um. Við bætt­ust erf­ið­ari ytri aðstæð­ur, aukin launa­kostn­aður og hörð sam­keppni, sem birt­ist fyrst og síð­ast í því að nær ómögu­legt virt­ist fyrir flug­fé­lög að velta auknum kostn­aði út í verð til neyt­enda.

Fjár­festa­kynn­ingin stað­festi þetta. Rekstr­ar­tap á fyrstu sex mán­uðum árs­ins 2018 var 2,8 millj­arðar króna.

Það var þó engan bil­bug á WOW air að finna opin­ber­lega. Skúli fór í við­tal við Morg­un­blaðið og Frétta­blaðið um miðjan ágúst og sagði að hann ætl­aði sér að gera flug­fé­lagið sitt mark­aðs­leið­andi á Íslandi strax á árinu 2019. Til þess þyrfti hann sex til tólf millj­arða króna brú­ar­fjár­mögnun til að styrkja fjár­hag WOW air og við­halda miklum vexti þess. Skúli var sann­færður um að eig­in­fjár­staða félags­ins myndi styrkj­ast hratt á seinni hluta árs­ins 2018 og að WOW air myndi skila um tveggja millj­arða króna hagn­aði á því tíma­bili.

Þá sagði í fjár­festa­kynn­ing­unni að WOW air yrði skráð á markað innan 18 mán­aða og að skulda­bréfa­út­boðið væri til þess að fjár­magna starf­sem­ina þangað til. Helst væri horft til skrán­ingar í Frank­furt í þeim efn­um.

Hæstu vextir í Evr­ópu

Allskyns við­bót­ar­upp­lýs­ingar spurð­ust út. Við­mæl­endur Kjarn­ans sögðu að lausa­fjár­staða WOW air í upp­hafi árs hafi verið þannig að hún dyggði varla til að fjár­magna næsta dag. 28 millj­óna dala end­ur­greiðsla á inn­borg­unum á vélar sem WOW air hafði ætlað að kaupa hafi ekki gert mikið meira en að plástra yfir þær sprungur sem voru farnar að mynd­ast.

Afar illa gekk að fá fjár­festa til að taka þátt í skulda­bréfa­út­boði WOW og ljóst var að stórir fag­fjár­festar á Íslandi, sér­stak­lega líf­eyr­is­sjóð­ir, myndu ekki kaupa bréf. Þetta var þrátt fyrir að vaxta­kjörin sem voru í boði níu pró­­sent ofan á þriggja mán­aða Euri­bor vexti, voru hærri en vextir voru í útboðum hjá Air Berl­in, Finna­ir, Norweg­ian Air, Air France, Brit­ish Airways og Luft­hansa sem ráð­ist hefur verið í á tíma­bil­inu 2013 til 2018.

Áður voru hæstu vextir sem evr­­ópskt flug­­­fé­lag hafði sam­­þykkt að greiða 8,5 pró­­sent í útboði sem Air Berlin fór í árið 2017 þegar fyr­ir­tækið sótti 125 milljón evra með víkj­andi skulda­bréfa­út­­­gáfu. Air Berlin fór í greiðslu­­stöðvun í ágúst í fyrra og hætti starf­­semi 27. októ­ber 2017. Önnur flug­­­fé­lög sem gáfu út skulda­bréf á tíma­bil­inu greiða, sam­­kvæmt frétt Bloomberg um mál­ið, 5,1 til 7,9 pró­­sent vexti.

Félagið sagt skulda lend­ing­ar­gjöld

Í ljósi lít­ils áhuga á þátt­töku í útboð­inu var skil­málum þess breytt og við bætt afslætti á hlutafé í fram­tíð­inni. Staða WOW air hafði á þessum vikum sem útboðið stóð yfir bein áhrif á lífs­kjör lands­manna. Vegna óvissu um fram­tíð félags­ins veikt­ist krónan skarpt sem end­aði með því að Seðla­banki Íslands greip inn í þró­un­ina með því að selja gjald­eyri fyrir 1,2 millj­arða króna. Hluta­bréfa­mark­að­ur­inn fylgdi fréttum af WOW air.

Fjár­festar héldu að sér höndum og við­skipti voru almennt með lægsta móti flesta daga. Ef talið var að tíð­inda væri að vænta af WOW air áttu sér þó stað miklar hreyf­ing­ar, sér­stak­lega með hluta­bréf í Icelandair sem hækk­uðu ef líkur voru taldar á því að WOW air færi á hlið­ina. Sömu­leiðis lækk­uðu hluta­bréf í N1, elds­neyt­is­sala WOW air, við slík tíð­indi.

Þann 15. sept­em­ber greindi Morg­un­blaðið frá því að WOW air skuld­aði rík­is­fyr­ir­tæk­inu Isa­via háar fjár­hæðir vegna ógreiddra lend­inga­gjald og að hluti skuld­ar­innar væri þegar gjald­fall­inn. Isa­via hefur ekki viljað tjá sig um hver skuld WOW air við félagið var né hvernig fyr­ir­tækið tók á þeirri stöðu. Skúli Mog­en­sen gagn­rýndi frétta­flutn­ing af þess­ari skuld harð­lega og sagði meðal ann­ars í stöðu­upp­færslu á Face­book að hann tryði „ekki að nokkur blaða­­­maður eða fjöl­mið­ill sé svo skamm­­­sýnn að vilja vís­vit­andi skemma fyrir áfram­hald­andi upp­­­­­bygg­ingu félags­­­ins.“

Ætl­aði að selja helm­ing á tugi millj­arð króna

Nú gerð­ust hlut­irnir hratt. Tveimur dögum síð­ar, 17. sept­em­ber, fór Skúli í við­tal við alþjóð­lega stór­blaðið Fin­ancial Times þar sem hann sagð­ist ætla að safna 200 til 300 millj­ónum dala, þá um 22 til 33 millj­örðum króna, í nýtt hlutafé í hluta­fjár­út­boði sem væri framund­an. Í því ætl­aði hann að selja helm­ing félags­ins. Skúli mat því verð­mæti WOW air í því ætl­aða útboði á allt að 66 millj­arða króna.

Dag­inn eft­ir, 18. sept­em­ber, var til­kynnt um að skulda­bréfa­út­boð­inu hefði verið lokað og að WOW air hefði náð í 50 millj­ónir evra. Ekki var greint frá því hverjir hefðu tekið þátt í skulda­bréfa­út­boð­inu að öðru leyti en að það væri bæði inn­lendir og erlendir fjár­fest­ar. Við­mæl­endur Kjarn­ans segja að á meðal erlendu fjár­fest­anna séu vog­un­ar­sjóðir sem átt hafa stöður á Íslandi. Þessi hópur var með belti og axla­bönd varð­andi WOW air þar sem kaupum þeirra fylgdi breyti­réttur á skulda­bréf­unum í hlutafé ef rekstur WOW air reynd­ist verri en lagt var upp með í áætl­un­um.

Skúli Mogensen, stofnandi, eigandi og forstjóri WOW air, leitaði til Icelandair í síðustu viku og bað samkeppnisaðilann um að kaupa flugfélagið sitt.
Mynd: WOW air

Alls kyns fyr­ir­varar voru settir inn í end­an­lega skil­mála sem fólu meðal ann­ars í sér að WOW air þyrfti að stand­ast reglu­leg álags­próf sem þurftu að sýna að eigið fé félags­ins ekki lægra en 25 millj­ónir dala fyrstu tólf mán­uð­ina eftir útgáf­una og 30-35 millj­ónir dala eftir það. Auk þess kom fram að vaxta­greiðslum sem féllu til vegna skulda­bréfa­út­boðs­ins yrðu færðar á fjár­vörslu­reikn­ing.

Í nokkrar vikur var svika­logn. Ekk­ert heyrð­ist annað en það að WOW air hætti að fljúga á nokkra áfanga­staði.

Eft­ir­lits­að­il­inn hrökk í gang

Í síð­ustu viku var staðan orðin þannig að grípa þurfti til frek­ari aðgerða. WOW air átti ekki með góðu móti fyrir mán­aða­mót­unum sem framundan voru. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans hrökk Sam­göngu­stofa, sem gefur út flug­rekstr­ar­leyfi og hefur eft­ir­lit með þeim flug­fé­lögum sem hafa leyfi til að starfa, í gír­inn og þrýsti á aðgerð­ir. Æðstu ráða­mönnum þjóð­ar­innar var haldið upp­lýst­um.

Skúli Mog­en­sen leit­aði til Icelandair eftir við­ræðum um kaup á WOW air á föstu­dag fyrir viku síð­an. Þær umleit­anir áttu sér ekki langan aðdrag­anda.

Við­ræð­urnar hófust fyrir alvöru á laug­ar­dag og stóðu yfir fram á mánu­dags­morg­un. Það var svo til­kynnt til Kaup­hallar Íslands klukkan 12:49 á mánu­dag að Icelandair hefði keypt WOW air.

Skúli gæti setið uppi með lítið gagn­gjald

Upp­gefið kaup­verð á WOW air , sem verður greitt með hlutum í Icelanda­ir, var um tveir millj­arðar króna miðað gengi Icelandair þegar til­kynnt var um kaup­in. Það var ansi langt frá þeim tugum millj­arða króna sem for­stjóri WOW air mat félagið á í við­tal­inu við Fin­ancial Times 17. sept­em­ber.

Kaup­verðið er líka bundið allskyns fyr­ir­vör­um. Skúli Mog­en­sen fær 1,8 pró­sent hlut í Icelandair fyrir þau víkj­andi lán sem hann breytti í hlutafé fyrr á þessu ári. Þau voru upp á tvo millj­arða króna en virði hlut­ar­ins sem hann getur fengið var 684 millj­ónir króna þegar til­kynnt var um kaup­in.

Þá er gengið út frá því að aðrir hlut­haf­ar, sem er félagið Títan fjár­fest­ingar í eigu Skúla Mog­en­sen, muni fá um 3,5 pró­sent hlut í Icelanda­ir. Það gagn­gjald er þó bundið nið­ur­stöðu áreið­an­leika­könn­un­ar. Sýni slík könnun að staða WOW air sé betri en reiknað er með getur hlutur stofn­and­ans farið upp í 4,8 pró­sent. Sýni hún mun verri stöðu getur Skúli setið uppi með að fá ekk­ert til við­bótar fyrir WOW air.

Vert er að taka fram að hluta­bréf í Icelandair hækk­uðu um yfir 40 pró­sent eftir að til­kynnt var um kaupin á WOW air og því hefur virði gagn­gjalds­ins hækkað á síð­ustu dög­um.

Nú er beðið nið­ur­stöðu áreið­an­leika­könn­unar og Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins til að hægt sé að klára kaup­in. Ekki er ljóst hvenær sú nið­ur­staða mun liggja fyr­ir. Ljóst er þó að sam­keppn­is­yf­ir­völdum verður gerð grein fyrir því að engin önnur staða hafi verið í kort­unum til að halda starf­semi WOW air áfram. Aðrir kaup­endur hafi ekki verið í mynd­inni og eina sem blasað hefði við að óbreyttu væri gjald­þrot.

Búast má við skipulagsbreytingum og hærra flugmiðaverði

Icelandair hefur sjálft átt í umtalsverðum rekstrarvandræðum undanfarin misseri. Breytingar á leiðarkerfi og markaðsstarfi sem ráðist var í í fyrra reyndust afleitar og vegna fyrstu tveggja fjórð­unga árs­ins voru sendar afkomu­við­var­anir vegna þess að nið­ur­staða þeirra var langt undir vænt­ing­um. Þessi staða gerði það að verkum að Björgólfur Jóhanns­son, sem hafði verið for­stjóri Icelandair í tíu ár, sagði af sér í lok ágúst. Með því vildi hann axla ábyrgð á ofan­greindum breyt­ing­um, sem teknar höfðu verið á hans vakt.

Vegna þessa hríð­féll mark­aðsvirði Icelandair. Það var um 189 millj­arðar króna fimmtu­dag­inn 28. apríl 2016 en var 38 milljarðar króna þegar tilkynnt var um kaupin á WOW air.

Það sem var jákvætt var að Icelandair hafði byggt upp umtals­vert eigið fé á síð­ustu árum og var því ágæt­lega í stakk búið til að takast á við sveifl­ur. Eigið fé í lok september var um 70 millj­arðar króna, en hafði lækkað um 2,6 millj­arða króna það sem af var ári. Þessi staða gerði það að verkum að Icelandair braut skilmála skuldabréfaflokka sem félagið hafði gefið út og er sem stendur í viðræðum við eigendur þeirra um að endursemja vegna þessa. Stærstu hlut­hafar félags­­ins eru íslenskir líf­eyr­is­­sjóð­ir, en stærsti hlut­haf­inn er Líf­eyr­is­­sjóður versl­un­­ar­­manna með 13,99 pró­­sent hlut.

Viðmælendur Kjarnans segja að það séu töluverð samlegðaráhrif sem skapist við kaupin á WOW air. Markaðsstarf síðarnefnda félagsins á netinu sé til að mynda mjög gott og bókunarkerfi þess hagkvæmt. En það býst enginn sem við er rætt við öðru en að seglin verði dregin verulega saman, vélum sem eru á leigu verði skilað og starfsfólki fækkað. Óhjákvæmilegt sé að flugmiðaverð fari í kjölfarið hækkandi. Þá megi búast við því að uppstokkun verði á skipulagi innan Icelandair Group þegar og ef yfirtakan á WOW air gengur í gegn.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar