Þingflokksformenn munu funda um fjölgun aðstoðarmanna þingflokkana í dag en stefnt er að fjölga þeim um sautján. Samastaða er á meðal flokka á þingi um það að fjölga aðstoðarmönnum en ekki hefur náðst samkomulag um hvernig aðstoðarmönnunum verður deilt niður á þingflokkana. Stefnt er að því að ljúka málinu áður en umræður um fjárlög fara á fullt á ný. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.
Formenn þingflokka hafa undanfarið rætt hvernig skuli standa að úthlutun þeirra aðstoðarmanna sem til stendur að bæta við. Samkvæmt núverandi tillögur gera ráð fyrir að aðstoðarmennirnir deilist niður á þingflokkana í samræmi við þingstyrk þeirra en að auki fái hver flokkur ritara. Stefnt er að því að aðstoðarmönnum fjölgi í þrepum þannig að hluti bætist við nú um áramótin og síðan á ný þegar árin 2020 og 2021 ganga í garð.
Kostnaðurinn 120 milljónir
Í fjárlagafrumvarpi ársins 2019 er gert ráð fyrir að fjárheimildir til Alþingis verði auknar um rúmar 120 milljónir til að auka aðstoð við þingflokka og þingmenn. Þingflokkar geta áfram ráðið sér aðstoðarmenn á eigin kostnað. Forsætisnefnd samþykkti fyrirhugaða fjölgun í sumar en með henni er stefnt að því að efla Alþingi.
Núverandi reglur um aðstoðarmenn þingflokkana er að formenn stjórnmálaflokka, sem eiga sæti á Alþingi og eru ekki jafnframt ráðherrar, eiga rétt á að ráða sér aðstoðarmann í fullt starf. Ásamt formönnum stjórnmálaflokka eiga alþingismenn, sem kjörnir eru í Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmum, sem eru ekki jafnframt ráðherrar eða formenn stjórnmálaflokka, eiga rétt á að ráða sér aðstoðarmann í þriðjungs-starfshlutfalli.
Aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar hafa aldrei verið fleiri
Í sumar kom fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, um aðstoðarmenn ráðherra og annað aðstoðarfólk, að alls hefðu 24 aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnar verið ráðnir á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og nú séu starfandi alls 22 aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnar en hámarkið er 25.
Þetta er hæsti fjöldi aðstoðarmanna en þeim hefur verið fjölgað smá saman síðan við samþykkt nýrra laga um Stjórnarráð Íslands árið 2011 voru heimildir til ráðningar aðstoðarmanna ráðherra og ríkisstjórnar auknar frá því sem áður hafði verið. Með þeim breytingum sem þá voru gerðar fékk hver ráðherra í ríkisstjórn heimild til að ráða tvo aðstoðarmenn án auglýsingar. Að auki var mælt fyrir um sérstaka heimild til handa ríkisstjórn til að taka ákvörðun um ráðningu þriggja til viðbótar.
Áætlaður heildarkostnaður vegna aðstoðarmanna ráðherra og ríkisstjórnar miðað við 22 aðstoðarmenn er 427 milljónir króna fyrir árið 2018. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2019 hækkar launaliður ríkisstjórnarinnar um tæpar 175 milljónir króna þar sem aðstoðarmönnum ráðherra hefur fjölgað.