Garðar G. Gíslason lögmaður Samherja hf. birtir opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Morgunblaðinu í morgun þar sem hann hvetur hana til að kynna sér dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem Hæstiréttur staðfesti á dögunum.
Þann 8. nóvember síðastliðinn kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli Seðlabanka Íslands gegn Samherja hf. Í dómnum er staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella úr gildi ákvörðun Seðlabanka Íslands frá 1. september 2016 um að Samherji hf. skuli greiða 15 milljónir króna í stjórnvaldssekt til ríkissjóðs vegna brota gegn reglum um gjaldeyrismál.
Garðar segir í bréfinu að lögum samkvæmt sé mikið vald falið seðlabankastjóra og að það vald hafi Már Guðmundsson seðlabankastjóri svo sannarlega misfarið með við meðferð málsins. „Sá sem misfer svo með opinbert vald á ekki að fá að halda því,“ segir hann.
Eins og fram kom í fréttum í gær hefur Katrín sent Gylfa Magnússyni formanni bankaráðs Seðlabanka Íslands bréf vegna umfjöllunar um dóm Hæstaréttar í máli Seðlabanka Íslands gegn Samherja hf. þar sem óskað er eftir greinargerð bankaráðs um málið.
„Hér með óska ég eftir greinargerð bankaráðs um mál Samherja frá þeim tíma sem rannsókn hófst á meintum brotum á reglum um gjaldeyrismál. Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um það hvað lá að baki ákvörðun Seðlabanka Íslands um að endurupptaka málið sem tilkynnt var Samherja hf. 30 mars 2016. Þá óska ég einnig eftir útlistun á því hvort og þá með hvaða hætti Seðlabanki Íslands hyggist bregðast við dómnum og hvort dómsniðurstaðan kalli á úrbætur á stjórnsýslu bankans og þá hvaða,“ segir í bréfi forsætisráðherra.
Garðar segir það ánægjuefni að sjá bréfið til bankaráðs Seðlabanka Íslands. „Bitur reynsla segir mér hins vegar að það sé óvarlegt að treysta um of á viðbrögð og afgreiðslu bankaráðs Seðlabanka Íslands, svo oft sem atbeina þess og inngrips var óskað undir meðferð fyrrgreinds máls, án nokkurs árangurs,“ segir hann.
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja var í viðtali á Hringbraut í gærkvöldi en þar sagði hann að forkólfar Seðlabanka Íslands hefðu ætlað sér með öllum ráðum að leggja Samherja að velli og virt þar að vettugi tilmæli og álit Sérstaks saksóknara og Skattrannsóknarstjóra sem öll voru Samherja í vil.
Hér fyrir neðan má sjá viðtalið í heild sinni.