Íslensk skattayfirvöld telja að endanlegir eigendur félagsins Dekhill Advisors Limited, aflandsfélags skráð til heimilis á Tortóla-eyju, séu bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, oftast kenndir við Bakkavör. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri bók eftir Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, sem kemur í verslanir í dag. Bókin heitir Kaupthinking: Bankinn sem átti sig sjálfur og fjallar um ris, fall og eftirmála af starfsemi Kaupþings, stærsta banka landsins fyrir bankahrun.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á 45,8 prósent hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum í janúar 2003, sem birt var í fyrra, kom fram að aflandsfélagið Dekhill Advisors Limited, skráð á Tortóla, hafi hagnast um 46,5 milljónir Bandaríkjadala, 2,9 milljarða króna á þávirði, á fléttu sem ofin var í kringum kaupin á bankanum. Á núvirði er upphæðin um 5,8 milljarðar króna.
Þar sagði enn fremur að „síðari viðskipti á grundvelli ofangreindra leynisamninga gerðu það að verkum, að Welling & Partners fékk í sinn hlut rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala sem voru lagðar inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser. Snemma árs 2006, eða um þremur árum eftir viðskiptin með eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum, voru 57,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Marine Choice Limited sem stofnað var af lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama en skráð á Tortóla. Raunverulegur eigandi Marine Choice Limited var Ólafur Ólafsson. Um svipað leyti voru 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem einnig var skráð á Tortóla. Ekki liggja fyrir óyggjandi upplýsingar um raunverulega eigendur Dekhill eða hverjir nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til félagsins.“
Rannsóknarnefndin spurði m.a. Ágúst og Lýð um félagið skriflega. Í svari þeirra sögðu þeir að þá „reki ekki minni til atriða sem því tengjast“. Nú er, líkt og áður sagði, hægt að greina frá því að bræðurnir Ágúst og Lýður eru taldir vera eigendur Dekhill Advisors.
Dekill Advisors ratað aftur í fréttir fyrir rúmum mánuði síðan þegar Björgólfur Thor Björgólfsson, athafnamaður og fyrrverandi kjölfestueigandi í Landsbankanum, sagði í stöðufærslu á vef sínum að þótt því hafi verið vandlega haldið leyndu fyrir skattrannsóknarstjóra hverjir eigi Dekhill Advisors þá hafi „ýmsir sem þekkja þokkalega til hafa hvíslað því að mér að þar að baki séu stærsti hluthafi og æðstu stjórnendur Kaupþings.“
Ágúst og Lýður voru aðaleigendur Exista, stærsta eiganda Kaupþings fyrir hrun.
Hægt er að lesa ítarlega fréttaskýringu um málefni Dekhill Advisors hér.