„Þetta er ekkert ósvipað og labba fram hjá svöngum einstakling og réttir að honum samloku og svo þegar hann ætlar að teygja sig í hana, þá gripur þú hana aftur tekur einn fjórða af henni, hendi henni og labbar í burtu. Þetta er auðvitað bara blaut tuska framan í þessa hópa sem hafa verið skildir eftir.“
Þetta segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um þær breytingar að lækka framlög til öryrkja um 1,1 milljarð króna og að framlög til uppbyggingar hjúkrunarheimila verði lækkuð um rúman milljarð króna frá því sem kynnt var í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í september.
Hann var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formanni Viðreisnar í sjónvarpsþættinum 21 sem frumsýndur var á Hringbraut í gærkvöldi. Þar ræddu þau breytingar á fjárlögum, umræðu um þriðja orkupakkann, kjaramál, gjaldmiðilinn og breytta samsetningu stjórnmálanna, svo fátt eitt sé nefnt. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Logi segir að upphaflega fjárlagafrumvarpið hafi hvorki náð að tryggja efnahagslegan né félagslegan stöðugleika. „Núna sjáum við hvað forsendur fjárlaganna voru veikar. Þær brustu og nýjar forsendur lagðar fram. Við það þarf að stoppa upp í eitthvað gat. Þá er ráðist á þá hópa sem veikastir standa fyrir, hafa ekki notið góðærisins og kjaraaukningar í uppganginum.“
Hún segir að með þessu sé ríkisstjórnin og meirihluti fjárlaganefndar strax farin að hverfa frá markmiðum sem sett voru fram í fjárlagaáætlun hennar. „Síðan á sama tíma og það er verið að skera niður til aldraðra og öryrkja þá er verið að keyra í gegnum þingið, bókstaflega keyra í gegnum þingið veiðigjöldin og ég held að einmitt núna sé lag til þess að bíða svolítið með veiðigjöldin og lækkun á auðlindagjöldum á útgerðina.“