Dómstóll í Bandaríkjunum hefur komist að þeirri niðurstöðu að Hvíta húsið hafi brotið á stjórnarskrárvörðum réttindum Jim Acosta, fréttamanns CNN, þegar hann var sviptur aðgangi að Hvíta húsinu. Dómarinn, sem var skipaður af Donald Trump í fyrra, sagði að ákvörðunin fæli í sér brot á fyrstu og fimmtu grein stjórnarskrár Bandaríkjanna. Hvíta húsið þarf því að skila Acosta aðgengispassa hans sem var gerður upptækur í síðustu viku. CNN greinir frá.
"Let's go back to work."
— ABC News (@ABC) November 16, 2018
CNN White House Correspondent Jim Acosta thanks colleagues, judge following decision ordering White House to immediately restore his press pass. https://t.co/dt6f0Awwoe pic.twitter.com/Vfj3SbinN6
CNN höfðaði mál gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta og nokkrum starfsmönnum Hvíta hússins vegna ákvörðunarinnar um að svipta Acosta aðgengi. Sú ákvörðun kom í kjölfar þess að Acosta og Trump áttu í orðaskiptum á blaðamannafundi þegar sá fyrrnefndi spurði forsetann út í flóttamannamál og hvort hann hafi notað þau sem vopn í nýafstöðnum kosningum þar sem hann talaði ítrekað um að innrás í Bandaríkin væri yfirvofandi. Trump brást fokillur við og sagði m.a.: „Ég held að þú ættir að stjórna CNN og leyfa mér að stjórna landinu.“ Síðar sagði hann að Acosta væri „dónalegur og hræðileg manneskja sem ætti ekki að vinna fyrir CNN.“
Ýmsir fjölmiðlar studdu málarekstur CNN. Þar á meðal var Fox News sem hefur verið mjög hliðhollt Trump síðan að hann tók við forsetaembættinu.