Íbúðaverð hefur hækkað umtalsvert umfram ráðstöfunartekjur á síðustu árum og því tekur það íbúa á aldrinum 30 til 34 ára ríflega tvöfalt fleiri mánuði að greiða meðalverð fyrir 90 fermetra íbúð í fjölbýli í dag en það gerði árið 1997. Eiginfjárhlutfall almennings hefur þó hækkað frá því það náði lágmarki árið 2010 og er nú hærra en það hefur verið í yfir tvo áratugi. Sterkari eiginfjárstaða hefur bæði verið sótt í hærri ráðstöfunartekjur en ekki síður í hækkun fasteignaverðs sem hefur hækkað mikið umfram verðlag. Frá þessu er greint í nýrri greiningu Capacent um stöðu og horfur á fasteignamarkaði sem kynnt var í Ráðhúsinu í morgun.Tekur íbúa 192 mánuði að greiða fyrir íbúð
Íbúðaverð hefur hækkað umtalsvert umfram ráðstöfunartekjur og því tekur það íbúa á aldrinum 30 til 34 ára ríflega tvöfalt fleiri mánuði að greiða meðalverð fyrir 90 fermetra íbúð í fjölbýli í dag en það gerði árið 1997, samkvæmt greiningu Capacent. Árið 1997 tók það 7 ár að borga íbúð en árið 2017 tekur það íbúa 16 ár eða 192 mánuði að greiða fyrir íbúð. Frá árinu 2014 hefur talan hækkað um 52 mánuði en það tók rúm 11 ár að greiða íbúð árið 2014.
Þörf á 4.000 íbúðum í borginni
Samkvæmt greiningunni vantar um 3.200 til 4.000 íbúðir á næstu árum til að fullnægja þörf fyrir nýjar íbúðir í borginni. Eins og staðan er í dag verða hins vegar aðeins byggðar um 1.350 íbúðir í borginni á næstu tveimur árum. Niðurstöðurnar eru meðal annars byggðar á samanburði á því hversu margar íbúðir þarf til að hýsa íbúa 25 ára og eldri og því hversu margar íbúðir eru nú í byggingu.
Það ætti að vera nokkur hvati til að byggja fjölbýlishús í Reykjavík, þar sem kostnaður við byggingu þeirra er að jafnaði lægri en kaupverð þeirra, byggingarkostnaður sérbýla heldur á hinn bóginn áfram að vera hærri en kaupverð þeirra. Samkvæmt skýrslunni munu þó ný hótel og aukið eftirlit með Airbnb líklega draga úr þörf fyrir nýbyggingar.
Miðbæjarálagið minnkar
Miðbæjarálagið hefur minnkað á undanförnum tveimur árum. Kaupverð í miðbæ Reykjavíkur hefur hækkað hlutfallslega minna en kaupverð í öðrum hverfum. Stærstur hluti leigjenda er staðsettur í póstnúmeri 101 og 105 Reykjavík en þar eru líka flestar smærri íbúðirnar staðsettar.
Eiginfjárstaða Íslendinga styrkist
Eiginfjárstaða Íslendinga hefur aldrei verið sterkari síðan mælingar Hagstofunnar hófust. Sterkari eiginfjárstaða hefur bæði verið sótt í hærri ráðstöfunartekjur en ekki síður í hækkun fasteignaverðs sem hefur hækkað mikið umfram verðlag samkvæmt greiningu Capacent. Eiginfjárstaða 25 til 29 ára hefur breyst mest í gegnum tíðina en eiginfjárstaða Íslendinga yngri en 40 ára heldur aldrei verið betri. Engu að síður er um þriðjungur þeirra sem eru með tekjur lægri en 559 þúsund krónur í leiguhúsnæði.
Þá kemur fram í greiningunni að tæplega 80 prósent Reykvíkinga 25 ára og eldri búa í eigin húsnæði, rúmlega 16 prósent í leiguhúsnæði og um 4 prósent búa í foreldrahúsum. Ef hins vegar er litið á búsetufyrirkomulag einstaklinga á aldrinum 25 til 34 ára búa 56 prósent í eigin húsnæði, 29 prósent í leiguhúsnæði og 16 prósent í foreldrahúsum.
Fyrstu kaupendum íbúða fer fjölgandi og voru þeir 26 prósent þeirra sem keyptu íbúðir í borginni á fyrri hluta árs 2018. Hlutfall fyrstu kaupenda hefur verið nánast stöðugt hækkandi frá árinu 2009 þegar 6 prósent íbúða voru keyptar af fyrstu kaupendum en árið 2014 var þetta hlutfall komið í 17 prósent.