Ekki er nóg að eiga gott fráveitukerfi, það þarf líka að kunna að umgangast það. Aðskotahlutir eins og blautþurrkur, dömubindi, matarolía og feiti geta myndað stíflur í lögnum, dælistöðvum og skólphreinsistöðvum, sem geta leitt til þess að óhreinsað skólp flæðir upp úr kerfinu með tilheyrandi óþægindum. Talið er að Íslendingar hendi fjórfalt meira rusli í klósettið en Svíar. Þetta kemur fram á Vísindavef Háskóla Íslands
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og UNICEF telja að 4,5 milljarður manna búi án öruggs klósetts og 892 milljónir gangi örna sinna á víðavangi.
Til að vekja athygli á þessum vanda, og styðja við sjötta sjálfbærnismarkmiðið, hafa Sameinuðu þjóðirnar skilgreint 19. nóvember sem alþjóðlega klósettdaginn. Þema ársins 2018 eru salernislausnir í anda náttúrunnar. Með því er átt við þurrklósett þar sem hægt er að vinna saurinn í áburð á tún og nota votlendi sem náttúrulega hreinsun á vatni, segir á Vísindavefnum.
Þar kemur jafnframt fram að áður en ákveðið var að reisa fyrstu fráveituna í Reykjavík 1911 hafi fólk losað koppa og notað vatn í ræsi og skurði ofanjarðar. Lækurinn, sem Lækjargata í miðbæ Reykjavíkur er nefnd eftir, hafi verið einn slíkur. Lækurinn hafi átt til að stíflast og þar sem hann tók líka við regnvatni og afrennsli af götum, þá hafi komið fyrir að saurblandað vatn flæddi yfir bakka hans alla leið yfir á Austurvöll. Á þessum tíma hafi margir dáið úr vatnsbornun faröldrum, eins og taugaveiki.
Enski læknirinn John Snow, sem fæddur var árið 1813, var fyrstur til að bera kennsl á tengsl drepsótta og óhreins drykkjarvatns, samkvæmt Vísindavefnum. „Með því að skrá ferðir þeirra sem sýktust af kóleru í London 1854 komst hann að því að allir hefðu notað vatn úr sama vatnsbrunninum á Breiðastræti í Soho-hverfinu. Þessi uppgötvun markaði upphaf hreinlætisbyltingarinnar sem gekk út á að leggja aðskild vatns- og fráveitukerfi í hús eins og við þekkjum í hinum vestræna heimi í dag. Nú minnast menn John Snow og hans framlags með samtökum sem kennd eru við hann, John Snow Society.
Nú, rúmri einni og hálfri öld eftir uppgötvun John Snows, og rúmri öld eftir byggingu fyrsta holræsis á Íslandi, er langt því frá að allir í heiminum njóti fráveitu eins og við gerum á Íslandi,“ segir á vefnum.
Fráveitumál á Íslandi í ólestri
Kjarninn fjallaði ítarlega um fráveitumál á síðasta ári en sérfræðingar virðast flestir vera sammála um að fráveitumálum og skólphreinsun sé ábótavant í mörgum sveitarfélögum á Íslandi. Þrátt fyrir reglugerðir og lög hvernig fráveitumálum eigi að vera háttað er pottur brotinn víða varðandi þau málefni. Eitt brýnasta málið, tengt mengun vegna frárennslis, er svokallað örplast sem rennur með skólpi og fráveituvatni út í sjóinn óhindrað. Fleiri þættir hafa áhrif á mengun og mætti nefna aukna ferðamennsku, stóriðju og ofanvatnsmengun.
Tryggvi Þórðarson, vatnavistfræðingur hjá Umhverfisstofnun, sagði í samtali við Kjarnann að það væri fremur reglan en undantekningin að þéttbýli á landinu hefðu ekki uppfyllt lög og reglugerð um fráveitur og skóp þó að þau hefðu átt að vera búin að því í síðasta lagi árið 2005 en þá rann út síðasti fresturinn.
Hann sagði að nauðsynlegar framkvæmdir væru dýrar og til dæmis væri hefðbundið að veitukerfið væri einungis tvöfaldað um leið og verið væri að taka upp einhverja götuna og endurnýja í henni. Hann taldi að miðað við þróunina hingað til myndi líklegast taka einhverja áratugi fyrir sveitarfélögin að framfylgja kröfum laga og reglugerðar að fullu.
Kerfið viðkvæmast fyrir skólpmengun
Að sögn Tryggva eru áhrif mengunar af völdum skólps misjöfn eftir því hversu viðkvæmur staðurinn í náttúrunni sem skólpið er leitt út í er. Hann sagði að mengunin færi líka eftir fjölda íbúaígilda eða svokölluðum persónueiningum sem geta verið talsvert fleiri en íbúarnir. Magn mengunarefnanna er metið út frá persónueiningum en ein persónueining jafngildir því sem einn maður lætur frá sér á einum sólarhring. Hann benti á að vegna atvinnurekstrar væri oft tvö til þrefalt meira af persónueiningum en íbúum.
Einnig eru bakteríur í skólpinu sem hafa ekki bein áhrif á vistkerfið en segja aðallega til um smithættu. Tryggvi sagði að kröfur væru um að saurbakteríur þyrftu að vera undir ákveðnum mörkum í vatni eftir losun. Kerfið væri viðkvæmast fyrir mengun af völdum næringarefna, þ.e. áburðarefna eða lífræns efnis. Ein helsta mengunin af völdum þessara efna er skólpmengun og taldi hann að þörf væri á úrbótum í þeim málum.
Ferðamennska eykur álag á kerfið
Fleiri þættir spila inn í skólpmengun og einn þeirra er fjölgun ferðamanna. Einn ferðamaður sem dvelur á Íslandi er eins og einn íbúi eða ein persónueining; sama mengun kemur frá honum og venjulegum íbúa. Tryggvi sagði að ferðamennskan yki álagið á staðinn í náttúrunni þar sem skólpið er leitt út í og á hreinsistöðvarnar. Hann sagði að hreinsistöðvarnar næðu aldrei nema hluta af menguninni, mismikið eftir því hvort um eins þreps, tveggja þrepa eða ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa er að ræða. Öll umframmengun sem hreinsibúnaðurinn ræður ekki við slippi því í gegn og kæmist út í umhverfið.
Annar þáttur sem Tryggvi benti á í sambandi við vanda með kerfið er vatnsnotkun hjá almenningi. „Ef ekki er hugsað um þetta og ef verið er að fara ósparlega með vatn og það notað í of miklu magni þá kostar það stærri leiðslur. Bæði vatnsleiðslur þar sem þarf að leiða vatnið inn í borgina og bæina og eins í lögnunum fyrir frárennsli,“ sagði hann. Kostnaður væri gríðarlegur í stórum hreinsistöðvum en sá kostnaður miðist við vatnsmagnið en ekki beint mengun vatnsins. Hann sagði að þannig ykist umfangið vegna aukavatns á öllum búnaði bæði í lögnum og í hreinsibúnaði væri hann til staðar.
Örplast fannst í neysluvatni Reykvíkinga
Í frétt Kjarnans frá því í byrjun febrúar á þessu ári segir að í vatnssýnum sem safnað var úr vatnsveitu Veitna í Reykjavík hafi komið í ljós að 0,2 til 0,4 plastagnir hafi fundist í hverjum lítra vatns. Samkvæmt tilkynningu frá Veitum eru þetta mun betri niðurstöður en birtar voru í erlendri skýrslu um örplast í neysluvatni sem var í fréttum hér á landi á síðasta ári. Sérfræðingur sem Kjarninn talaði við sagði að þrátt fyrir jákvæðar niðurstöður þá bæri að taka þær alvarlega. Frekari rannsókna væri þörf.
Örplast er heiti á plastögnum sem eru minni en 5 millimetrar að þvermáli. Örplast getur annars vegar verið framleitt örplast, sem til dæmis finnst í snyrtivörum, eða örplast sem verður til við niðurbrot, til að mynda úr dekkjum, innkaupapokum eða fatnaði.
Niðurstöður mælinga Veitna samsvara því að 1 til 2 slíkar agnir finnist í 5 lítrum vatns. Tekin voru stór sýni, eða 10 til 150 lítrar. Kom fram í fyrrnefndri erlendri skýrslu að 83 prósent þeirra 159 sýna sem hún byggir á, og tekin voru víðs vegar í heiminum, innihéldu að meðaltali tuttugufalt og allt að 400-falt magn plastagna miðað við það sem fannst í neysluvatni Reykvíkinga.
Lifum ekki í einangruðum heimi
Hrönn Jörundsdóttir, sviðsstjóri og sérfræðingur hjá MATÍS, sagði í samtali við Kjarnann að nauðsynlegt væri að finna uppsprettu örplasts, þ.e. hvaðan það komi. Hún sagði að þau hjá MATÍS væru að skoða þessi mál og að til stæði að birta skýrslu um örplast á Íslandi í náinni framtíð.
Varðandi niðurstöður úr sýnatöku Veitna þá sagði hún að það væri jákvætt að lítið örplast hafi greinst í sýnunum en á hinn bóginn þá væri það áhyggjuefni að plastagnir hafi fundist yfirhöfuð. Þetta sýndi að örplast sé víðar en fólk geri sér grein fyrir. „Það verður að taka þetta alvarlega, við erum ekki laus við þetta í okkar umhverfi frekar en aðrir,“ sagði hún og bætti því við að Íslendingar lifi ekki í einangruðum heimi og að þetta snerti okkur öll.