Samningur hefur komist á um kaup Kólfs ehf., eignarhaldsfélags í meirihlutaeigu Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa Lónsins hf, á hlut Horns II í Hvatningu hf. en Hvatning heldur á um 40 prósent hlut í Bláa Lóninu hf.. Kólfur og Horn II hafa átt í góðu samstarfi um eignarhald í Bláa Lóninu í gegnum Hvatningu hf. frá árinu 2012.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Samhliða hefur núverandi hluthöfum Horns II verið veittur kaupréttur á sama viðskiptagengi til 31. janúar næstkomandi, á þeim hlutum sem undir voru í viðskiptunum. Tilurð viðskiptanna má rekja til þess að líftími Horns II mun renna sitt skeið á næsta ári, segir í tilkynningunni.
Bláa Lónið birti ársskýrslu sína í júní síðastliðnum en samkvæmt henni nam hagnaður fyrirtækisins eftir skatta 31 milljón evra árið 2017. Mestur var munurinn á rekstrartekjum en þær hækkuðu langt umfram rekstrargjöld.
Samkvæmt ársreikningi Bláa Lónsins voru eignir fyrirtækisins metnar á 138,7 milljónir evra, eða 17, 2 milljarða íslenskra króna sé miðað við gengi gjaldmiðlanna við síðustu árslok. Bókfært virði félagsins stendur hins vegar í 5.259 evrum, eða tæpum 655 milljónum íslenskra króna.
Tekjur af rekstri félagsins árið 2017 nam 12,8 milljörðum króna, samanborið við 7,1 milljarði á árinu áður. Þá var hreinn hagnaður fyrirtækisins um 3,86 milljarður, sem nemur um þriðjungshækkun frá 2016. Tæplega þriðja hver króna sem kom í hendur félagsins árið 2017 var því hreinn hagnaður.