Breski auðjöfurinn Jim Ratcliffe hefur keypt eignarhaldsfélagið Grænaþing af Jóhannesi Kristinssyni, fjárfesti. Með þessum kaupum á Ratcliffe 86,7 prósent hlut í veiðifélaginu Streng ehf. sem er með Selá og Hofsá í Vopnafirði á leigu. Strengur ehf. á sex jarðir í Vopnafirði að hluta eða öllu leyti auk nýlegs veiðihótels við Selá. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Á nú hlut í yfir þrjátíu jörðum í Vopnafirði
Ratcliffe er einn stærsti landeigandinn á Íslandi en hann hefur fest kaup á jörðum í Vopnafirði og Þistilfirði undir því yfirskini að hann vilji vernda villta laxastofna við Atlantshaf. Við Kaup Ratcliffes á öllum eignarhlut Jóhannesar í Grænaþingi eignast hann hlut í enn fleiri jörðum en hann hefur áður átt í Vopnafirði en þær voru um 30 fyrir. Grænaþing á helminginn í jörðinni Fremri-Nýp, fimmtung í Hauksstöðum og 42,86 prósenta hlut í jörðinni Þorvaldsstöðum.
Samkvæmt Fréttablaðinu var tilkynnt um kaupin á fundi í veiðifélaginu í síðustu viku. Gísli Stefánsson, framkvæmdastjóri Strengs, staðfesti að þetta hefði átt sér stað en vildi að öðru leyti ekki ræða þessi viðskipti.
Ríkasti maður Bretlands
Jim Ratcliffe er ríkasti maður Bretlands árið 2018 samkvæmt úttekt The Sunday Times. Alls eru eignir hans metnar á 21,1 milljarð punda eða tæpa þrjú þúsund milljarða króna. Ratcliffe hefur verið umsvifamikill á Íslandi en hann keypti til að mynda stóran eignarhlut í Grímsstöðum á fjöllum í lok árs 2016 auk þess sem hann hefur keypt upp jarðir í Vopnafirði í grennd við gjöfular laxár, meðal annars Selá og Hofsá. Þegar Ratcliffe keypti Grímsstaði á sínum tíma sendi hann frá sér yfirlýsingu sem í stóð að á Grímsstöðum væri vatnasvið mikilvægra laxveiðiáa á Norðausturlandi og að kaupin á landinu væru þáttur í því að venda villta laxastofna við Atlantshaf.
Annar stór jarðakaupandi í Vopnafirði hefur verið fjárfestirinn Jóhannes Kristinsson. Jóhannes átti einkahlutafélagið Grænaþing sem átti rúmlega helminginn, 52,67 prósent, í veiðifélaginu Streng. Jóhannes selur allt hlutaféð til Ratcliffes. Ratcliffe átti fyrir 34 prósent í veiðifélaginu Streng í gegnum félagið Fálkaþing. Hagnaður Strengs í fyrra nam einni milljón króna samkvæmt ársreikningi. Þar kemur einnig fram að eignir félagsins séu um 955 milljónir króna og eigið fé um 400 milljónir.
Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að ekki náðist í Jóhannes Kristinsson við vinnslu fréttarinnar og því er ekki vitað nákvæmlega hversu margar jarðir hafi skipt um hendur milli hans og Ratcliffes. Ekki er heldur vitað hver verðmiðinn á Grænaþingi ehf. var í þessari sölu.
Áhyggjur vegna jarðakaupa erlendra aðila hér á landi
Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að heimamenn eystra hafa áður lýst því hvernig tilraunir breska auðkýfingsins til að kaupa jarðir á svæðinu hafi framkallað deilur innan fjölskyldna um hvort selja eigi jarðirnar eða ekki. Oftar en ekki hafi lögfræðiskrifstofur eða fasteignasölur sent eigendum jarða kauptilboð frá ónefndum erlendum aðila.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í samtali við Morgunblaðið í júlí á þessu ári.að full ástæða væri til að bregðast við áhyggjum fólks af jarðakaupum erlendra aðila hér á landi. „Ég veit að margir, þar á meðal erlendir aðilar, hafa keypt jarðir í gegnum félög eða með því að kaupa hluti í félögum sem eiga jarðir. Lögin heimila það. Það væri mögulegt að kveða á um það í lögum að það yrði að liggja fyrir hvaða einstaklingar eiga félögin, telji menn að það skipti máli í sjálfu sér. Fyrir því eru fordæmi eins og varðandi eignarhald á flugfélögum, en það er mjög sérstakt fordæmi,“ sagði Sigríður.