Notendur samfélagsmiðlanna Facebook, Instagram og Messenger um heim allan hafa lent í vandræðum þegar þeir hafa ætlað að skoða efnisveitur þeirra frá því í hádeginu í dag. Vefþjónustur Facebook lágu niðri þannig að notendur höfðu ekki aðgang að reikningum sínum. Frá þessu er greint í frétt Rúv.
Í fréttinni kemur jafnframt fram að á vefsíðunni Down Detector megi sjá tilkynningar og prófanir á vefþjónum Facebook. „Flest tilfelli hafa verið tilkynnt á austurströnd Bandaríkjanna og í Evrópu. Líklegt er að flestar tilkynningar berist frá þessum svæðum vegna tímamismunar í heiminum.“
Enn fremur segir að ekki hafi borist tilkynningar frá Facebook vegna vandamálsins og að ekki hafi verið greint frá ástæðum bilunarinnar.
Ekki þykir ljóst hvort bilanir samfélagsmiðlanna tengist, samkvæmt frétt The Independent um málið. Í henni kemur fram að bilanir af þessu tagi séu sjaldséðar en geti haft miklar afleiðingar í för með sér. Milljónir manna nýti sér þjónustu Facebook úti um allan heim og því hafi jafnvel minnstu vandræði áhrif á fjölda fólks.