Forstjóri Kauphallarinnar segir að það sé aldrei hægt að tryggja að einhver fari ekki yfir á rauðu ljósi þótt það sé bannað. Fjárfestingaumhverfið hér sé þó mun tryggara og með öðrum hætti en fyrir áratug síðan. Dómar í stórum efnahagsbrotamálum hafi haft gríðarlegt gildi við að draga línu í sandinn.
„Það hafa verið gerðar margvíslegar úrbætur. Auðvitað hefur fjármálaeftirlit verið stóreflt á þessum tíma og breytingar gerðar á lagaumhverfinu sem ég held að séu mikilvægar. Svo hafa auðvitað fallið dómar í markaðsmisnotkunarmálum sem ég held að hafi hafi haft gríðarlegt gildi. Þessir dómar hafa sagt okkur með óyggjandi hætti hvað má og hvað má ekki og hverjar afleiðingarnar eru af því að fara út fyrir þá línu.“
Þetta segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem frumsýndur verður klukkan 21 í kvöld. Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan.
Í þættinum ræðir Páll meðal annars um hvernig hefur tekist til að endurreisa íslenskan hlutabréfamarkað síðastliðinn áratug, um dóma í markaðsmisnotkunarmálum, þar sem stjórnendur og starfsmenn þriggja stærstu bankanna hafa verið fundnir sekir um slíkt athæfi, og hvort við getum með vissu fullyrt að slík hegðun eigi sér ekki stað í dag.
Páll skrifaði grein sem birtist á Kjarnanum í apríl 2016 þar sem hann sagði m.a.: „ „Alvarleg lögbrot voru framin. Afleitir viðskiptahættir kostuðu gríðarlega fjármuni og mikla þjáningu. Stórkostleg markaðsmisnotkun átti sér stað. Trú á markaðshagkerfið og hið frjálsa framtak hefur beðið hnekki.“
Páll segir að umgjörðin utan um verðbréfaviðskipti hérlendis sé orðin eins trygg og annars staðar. „Auðvitað er það þannig að þú getur aldrei tryggt að einhver hegði sér rétt og vel. Þú getur ekki tryggt að einhver keyri yfir á rauðu ljósi þó það séu boð og bönn við því. En ég held að við höfum bundið mjög vel um hnútana og að umhverfið hér sé mun tryggara og með allt öðrum hætti en fyrir áratug síðan.“