Fjárfestingarsjóðir Eaton Vance Mangement, bandaríska sjóðstýringafyrirtækið, áttu ríkisskuldabréf, lán, íslensk hlutabréf og kröfur á íslensk félög fyrir samanlagt liðlega 67 milljörðum króna í lok júlímánaðar á þessu ári. Fyrirtækið er umsvifamesti erlendi fjárfestirinn hér á landi og er í hópi tuttugu stærstu hluthafa í fjölmörgum skráðum félögum. Frá þessu er greint í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag.
Fimm sjóðir í stýringu Eaton Vance áttu þá samanlagt tæpan 31 milljarð króna í óverðtryggðum ríkisskuldabréfum og 29 milljarða króna í íslenskum hlutabréfum. Að auki hafa sjóðirnir veitt Almenna leigufélaginu og Heimavöllum lán fyrr á árinu fyrir samanlagt ríflega átta milljarða króna.
Fjárfestingar í íslenskum hlutabréfum og ríkisskuldabréfum
Fjárfestingarsjóðir Eaton Vance, hófu innreið sína á hérlendan hlutabréfamarkað fyrir um þremur árum en í júlí á þessu ári námu fjárfestingar þeirra í íslenskum hlutabréfum samanlagt 232 milljónum dala, jafnvirði 28,6 milljarða króna miðað við núverandi gengi. Samkvæmt yfirliti yfir fjárfestingar sjóða Eaton Vance, sem var nýlega birt á vef bandaríska verðbréfaeftirlitsins, áttu sjóðirnir hlutabréf í fimmtán skráðum félögum í lok júlí. Það er einkum sjóðirnir Global Macro Absolute Return Advantage og Global Macro Portfolio sem hafa látið hvað mest til sín taka á íslenskum hlutabréfamarkaði en þeir eru báðir áberandi á listum yfir stærstu hluthafa Kauphallarfélaga samkvæmt Markaðinum.
Sem dæmi má taka að hlutabréfaeign þeirra í fasteignafélögunum þremur, Eik, Regin, og Reitum nam 8,8 milljörðum. Eign sjóðanna í hlutabréfum tryggingafélaganna þriggja, Sjóvár, TM og VÍS var samanlagt tæplega 4 milljarðar króna. Ásamt því nam eign sjóðanna um 4,2 milljörðum króna í Högum og 4,1 milljarði króna í Símanum.
Eaton Vance átti einnig ríkisskuldabréf hér á landi fyrir um 248 milljónir dala, jafnvirði 30,6 milljarða króna, í lok júlí og munaði þar mestu um eign sjóða félagsins í löngum bréfum. Þannig áttu þeir 17 milljarða króna í skuldabréfaflokknum RB31 og ríflega 6 milljarða í flokknum RB28.
Breytingar á eignasafni þeirra hér á landi
Í umfjöllun Markaðarins er greint frá því hvernig nokkrar breytingar hafa orðið á eignasafni Eaton Vance hér á landi á síðari hluta ársins. Sem dæmi seldu sjóðir á vegum sjóðastýringarfyrirtækisins ríflega tveggja prósenta hlut í Icelandair Group í september en ætla má að söluverð hlutarins hafi verið rúmlega 900 milljónir króna ef miðað er við gengi hlutabréfa í flugfélaginu á þeim tíma þegar viðskiptin gengu í gegn.
Sjóðirnir seldu jafnframt fyrr í þessum mánuði um 1,2 prósenta hlut í Regin, en verðið var um 435 milljónir sé tekið mið af gengi hlutabréfa í fasteignafélaginu við söluna, og þá hafa þeir einnig minnkað nokkuð við sig í tryggingafélögunum á undanförnum mánuðum. Á sama tíma hafa sjóðir Eaton Vance hins vegar bætt við hlut sinn í Arion banka og fara þeir nú með ríflega 2,6 prósenta hlut í bankanum. Til samanburðar áttu sjóðirnir um 1,2 prósenta hlut í kjölfar skráningar bankans á hlutabréfamarkað í júní samkvæmt Markaðinum.