Allar breytingartillögur að fjárlögum sem lagðar voru fram af stjórnarandstöðuflokkum voru felldar í annarri umræðu um fjárlög á Alþingi í gær. Þingflokkar Samfylkingarinnar, Pírata, Miðflokksins og flokki fólksins lögðu allir fram sínar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið en allar þær tillögur voru felldar í atkvæðagreiðslu Alþingis í gær. Allar breytingartillögur meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið voru hins vegar samþykktar og fer frumvarpið því til fjárlaganefndar en þriðja umræða fer fram á Alþingi í dag.
Breytingartillögur meirihlutans gagnrýndar
Nokkuð hefur verið deilt um fjárlagafrumvarpið að undanförnu og breytingartillögur meirihlutans en gagnrýni hefur meðal annars komið frá Alþýðusambandi Íslands en miðstjórn Alþýðusambands Íslands sakaði meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um að reka „óábyrga ríkisfjármálastefnu,“ á fjölmiðlafundi í síðustu viku. Gagnrýnisraddir varðandi breytingartillögurnar hafa einnig borist frá Öryrkjabandalaginu, SÁÁ og stjórnarandstöðuflokkunum.
Meðal þeirra breytingartillaga sem felldar voru í gær má nefna tillögu Miðflokksins um að veita Krabbameinsfélagi Íslands fimmtíu milljónir króna. Allar sautján tillögur Samfylkingarinnar voru felldar þar á meðal tillögur um hækkun á barnabótum og vaxtabótum um tvo milljarða til hvors málaflokks ásamt öllum tillögum Pírata sem m.a. sneru að afnámi krónu á móti krónu skerðingu og lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði.
Gagnrýna að ríkisstjórnin hafnaði öllum breytingartillögum nema sínum eigin
Samfylkingin hefur gagnrýnt stefnu ríkisstjórnarinnar er við kemur fjárlögunum og í tilkynningu frá flokknum segir að fjárlagafrumvarpið tryggir hvorki félagslegan né efnahagslegan stöðugleika og vanrækir félagslega innviði. „Stefna ríkisstjórnarinnar er óábyrg og ósjálfbær og lætur byrðarnar á þá sem minnst hafa á milli handanna þegar kreppir að og hlífir breiðu bökunum. Ekkert er gert til að mæta kröfum verkalýðshreyfingarinnar og tryggja réttlæti“ segir jafnframt í tilkynningu frá flokknum.
„Það var sláandi að sjá ríkisstjórnina fella hverja góða tillöguna á eftir annarri. Aukin framlög í barna- og vaxtabætur líka, hærri stofnframlög, aukning til öryrkja og aldraðra, hækkun til SÁÁ var felld, hóflegar viðbætur til hjúkrunarheimila, skóla, þróunarsamvinnu o.s.frv. Ríkisstjórnin kaus frekar lækkun til öryrkja og aldraðra, lægri húsnæðisstuðning, lægri framlög til framhaldsskólanna og auðvitað lægri veiðigjöld“ segir Logi Einarsson
Þingflokkur Pírata gagnrýndi einnig niðurstöðu umræðunnar í gærkvöldi og segir niðurstöðuna hafa verið fyrirsjáanlega, í Facebook-færslu þingflokksins í gærkvöldi. Í færslunni gagnrýna þeir jafnframt að allar breytingartillögur stjórnarandstöðuflokkana voru felldar án skoðunar, „Það er greinilegt að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna ætlar engu að breyta til að efla traust til stjórnmálanna.“
Allar breytingatillögur Pírata við fjárlögin voru felldar í dag. Rétt í þessu lauk atkvæðagreiðslu um fjárlög næsta árs...
Posted by Þingflokkur Pírata on Wednesday, November 21, 2018