Lánveitingarheimild til Íslandspósts var felld út úr breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar en annari umræðu um fjárlagafrumvarp næsta árs lauk í gær. Til stóð að greidd yrðu atkvæði um heimild ríkissjóðs til að lána Íslandspóst 1,5 milljarða króna en sú breytingartillaga var dregin til baka áður en greitt voru atkvæði um málið. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Meirihluti fjárlaganefndar hafði lagt til að hækkað yrði lán ríkisins til Íslandspóst um einn milljarð króna en fyrirtækið hafði þegar fengið vilyrði fyrir láni upp á 500 milljónir. Lánið átti að hjálpa Íslandspósti að mæta lausafjárvanda félagsins en ekki lá fyrir um hvort að það sé eina orsök rekstrarvandafélagsins. Sú breytingartillaga var hins vegar dregin til baka.
Íslandspóstur tapaði 161,2 milljónum króna á fyrri helmingi ársins 2018. Það er mikill viðsnúningur frá sama tímabili í fyrra þegar fyrirtækið skilaði 99,1 milljón króna hagnaði. Samkvæmt hálfsársuppgjöri félagsins reiknar Íslandspóstur með því að tekjur sínar muni dragast saman um hátt í 400 milljónir króna á árinu 2018 vegna fækkunar á bréfasendingum. Í tilkynningu frá Íslandspósti í ágúst vegna afkomu fyrirtækisins á fyrstu sex mánuðum ársins segir að stjórnendur fyrirtækisins vinni nú að því „í samvinnu við stjórnvöld að leita leiða til að tryggja fjármögnun alþjónustunnar og laga hana að breyttum forsendum. Nauðsynlegt er að niðurstaða liggi fyrir í þeim efnum á næstu mánuðum.“
Fjárlaganefnd vill skoða málið betur
„Meirihluti fjárlaganefndar tók þá ákvörðun í [gærmorgun] að draga breytingartillöguna til baka og skoða málið betur. Það er til skoðunar hvort einhver frekari skilyrði verði sett fyrir þessari heimild til lánveitingar. Þá kæmi breytt breytingartillaga inn á milli annarrar og þriðju umræðu. Nefndin vildi skoða málið betur og kalla eftir frekari skýringum áður en þessi heimild yrði veitt,“ segir Páll Magnússon, nefndarmaður í fjárlaganefnd í samtali við Fréttablaðið.
Á Alþingi liggur fyrir frumvarp, sem er nú til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd, til nýrrar heildarlöggjafar um póstþjónustu. Þar stendur meðal annars til að afnema einkarétt Íslandspóst á almennum bréfum. Heimildir Fréttablaðsins herma að það frumvarp spili rullu í málinu auk þess að mikilli óvissu sé háð hvort Íslandspóstur geti með nokkru móti endurgreitt lánið. Fjárlög fara nú fyrir fjárlaganefnd áður en þriðja umræða um það hefst.