Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, á söluhæstu bókina í Pennanum Eymundsson um þessar mundir. Bókin Kaupthinking – Bankinn sem átti sig sjálfur hefur selst betur en allar aðrar bækur en næst á eftir Kaupthinking koma nýjar bækur Arnalds Indriðasonar (Stúlkan hjá brúnni) og Yrsu Sigurðardóttur (Brúðan).
Bók Þórðar Snæs byggir á ítarlegri rannsóknarvinnu yfir margra ára tímabil og eru birtar í bókinni upplýsingar sem ekki hafa verið opinberaðar áður, meðal annars úr rannsóknargögnum, tölvupóstum og símhlerunum.
Þetta er fjórða bókin sem starfsmenn Kjarnans senda frá sér á skömmum tíma og þriðja rannsóknarblaðamennskubókin.
Magnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson gáfu út bókina Ísland ehf. – auðmenn og áhrif eftir hrun árið 2013 og Bára Huld Beck gaf út Þjáningarfrelsið – Óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla ásamt Auði Jónsdóttur og Steinunni Stefánsdóttur fyrr á árinu.