Tillaga til þingsályktunar um kynjavakt Alþingis er nú til umræðu á þinginu. Lagt er til koma á fót kynjavakt, sem geri úttekt á því hvort og hvernig kyn hefur áhrif á aðkomu að ákvarðanatöku innan Alþingis, hvernig ályktunum þingsins og aðgerðaáætlunum ríkisstjórna í jafnréttismálum hefur verið framfylgt og skoði næmi Alþingis fyrir ólíkri stöðu kynjanna samkvæmt kynnæmum vísum Alþjóðaþingmannasambandsins.
Fyrsti flutningsmaður er Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, en aðrir flutningsmenn eru allir úr VG.
Í tillögunni kemur fram að til að tryggja fjölbreytt sjónarmið skuli þátttakendur í kynjavakt Alþingis koma úr ólíkum áttum. „Að vinnunni komi bæði fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu, karlar og konur. Fulltrúi skrifstofu Alþingis sitji í hópnum, sem og fulltrúi starfsmanna Alþingis. Haft verði samráð við jafnréttisnefnd skrifstofu Alþingis.“
Segir jafnframt í tillögunni að kynjavaktin skuli skila forseta Alþingis skýrslu fyrir 1. apríl ár hvert og forseti leggja skýrsluna fyrir Alþingi. Fyrstu skýrslunni verði skilað fyrir 1. desember á næsta ári. Lagt er til að sérstaklega verði könnuð vinnustaðamenning Alþingis með tilliti til samskipta kynjanna.
Ekki bara fjöldinn sem skiptir máli
Í greinargerðinni með tillögunni kemur fram að konur séu aðeins 23,4 prósent þeirra sem sæti eiga á þjóðþingum heimsins. Þótt staðan sé betri hvað þetta varðar á Alþingi sé full þörf á að gera úttekt á kynjajafnrétti innan Alþingis. Enn fremur kemur fram að Alþjóðaþingmannasambandið hafi gefið út vísa til þjóðþinga sem gera þeim kleift að meta kynjajafnrétti innan þeirra. Þar sé tekið tillit til fleiri þátta en fjölda kvenna og karla og greint hvort bæði konur og karlar eigi aðild að ákvarðanatöku á öllum stigum og séu virkir þátttakendur.
„Fjölmörg þjóðþing hafa tekið upp slíka kynjavakt sem fylgist með jafnrétti kynjanna. Í Finnlandi er sérstök nefnd að störfum á vegum þingsins í þessum málum.
Alþingi hefur á undanförnum árum samþykkt ýmsar stefnur og aðgerðaáætlanir í jafnréttismálum. Nokkuð hefur þó skort á eftirfylgni. Nefna má að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum rann út vorið 2015, en ný var ekki samþykkt fyrr en í september 2016. Þá hefur ekki verið gerð heildstæð aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi síðan árið 2011,“ segir í greinargerðinni.
Kynjavaktinni er ætlað að meta stöðuna í þessum efnum og fylgja eftir þegar með þarf, svo og að greina aðstöðu kynjanna til að hafa áhrif og gera úttekt á þeim reglum og lögum sem í gildi eru varðandi jafnrétti kynjanna. Í greinargerðinni segir að nauðsynlegt sé að Alþingi fylgist betur með þróun þessa málaflokks en nú er. Alþingi sendi á síðasta ári fulltrúa á fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York í fyrsta sinn frá hruni. Þar hafi glögglega komið fram hve vægi kynjajafnréttis er mikilvægt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Staða starfsfólks Alþingis önnur en staða þingmanna
„Ísland stendur sig að mörgu leyti vel á þessum vettvangi og er á ákveðinn hátt til fyrirmyndar, ásamt því að styðja baráttu þeirra kvenna sem eiga í vök að verjast vegna fátæktar, stríðsátaka, karlrembu og ýmislegs fleira. Ísland hefur því að nokkru tvíþætt hlutverk, að vera til fyrirmyndar og sækja um leið fram, ásamt því að koma öðrum til varnar og aðstoðar.
Hvað skrifstofuna varðar er mikilvægt að fylgjast með framgangi í starfi og kynjaskiptingu í ólíkum störfum á vettvangi þingsins. Í þeim efnum er mikilvægt að byggja á því starfi sem unnið er innan jafnréttisnefndar skrifstofu Alþingis. Staða starfsfólks er nokkuð önnur en staða þingmanna og um það gilda önnur lög og reglur sem geta t.d. haft bein áhrif á skyldur skrifstofunnar til að gæta jafnræðis kynja í ráðningum o.fl. Kynnæmir vísar Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) taka þó til þingsins alls, bæði til Alþingis sem lýðræðisvettvangs og löggjafarsamkundu sem og til skrifstofu Alþingis sem vinnustaðar opinberra starfsmanna,“ segir í greinargerðinni.