„Nú svo geri ég mér vonir um, og held að það sé gríðarlega mikilvægt, að bankarnir, sem eru í eigu ríkisins, komi inn á markaðinn. Og ég held að þetta geti hreinlega ráðið úrslitum um það að ná þessu markmiði okkar að koma íslenska markaðinum okkar upp í flokk á meðal þessara bestu markaða í heimi[...]Því í raun og veru það sem fyrst og fremst stendur okkur fyrir þrifum til þess að komast þangað er stærð markaðarins.“
Þetta segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Páll segist hafa heimildir fyrir því að ef markaðsvirði félaganna sem skráð eru á íslenskan hlutabréfamarkað yrði tvöfaldað, þannig að það kæmu um þúsund milljarðar í viðbót af markaðsvirði inn á hann, þá væri íslenski markaðurinn kominn nánast alla leið í átt að ofangreindu markmiði. „Ef við lítum á markaðsvirði bankanna þá gæti skráning þeirra komið okkur vel áleiðis. Svo má náttúrulega reikna með vexti þeirra fyrirtækja sem þar fyrir eru. Þannig að við lítum mikið til skráningu Íslandsbanka og Landsbankans. Og teljum að það væri einfaldlega gríðarlega mikilvægt fyrir þróun þessara innviða,hlutabréfamarkaðar, á næstu árum.“
Þó segist Páll skilja áhyggjur almennings af því að með skráningu orkufyrirtækja séu undir auðlindir þjóðar, og því vilji margir fara varlega. „Við höfum hins vegar bent á það að það eru fleiri en ein leið inn á markað.
Ein leið sem hefur verið lítið rædd er að ríkið einfaldlega seldi B-hlutabréf í t.d. Landsvirkjun sem bæru engan atkvæðisrétt.
Ríkið yrði að nokkru leyti leyst út úr sinni fjárhagslegu áhættu en væru samt sem áður með tögl og haldir í fyrirtækinu og réðu því alfarið. Ég held að þessi leið væri verð athugunar.“