Ríki sem gerast aðilar að alþjóðastofnunum og alþjóðasamningum gera það á grundvelli fullveldis þeirra, en skerða það ekki eða afsala sér því.
Þetta sagði Bjarni Már Magnússon, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, í viðtali við RÚV í kvöld. Bjarni Már fjallaði um þessi mál á ráðstefnu um fullveldi og þjóðaröryggi í Hörpu, sem fram fór í gær.
Þessi sjónarmið hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu í tengslum við hinn svonefnda þriðja orkupakka, sem fjallað var ítarlega um á vef Kjarnans í gær. Málið er umdeilt, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins, þar sem stór hópur flokksmanna hefur áhyggjur af því að forræði Íslands yfir orkuauðlindum landsins fari smám saman til Brussel með því að samþykkja orkupakkann.
Ríkisstjórnin hefur nú þegar frestað samþykkt hans fram á vor, en með honum er meginatriðið það að koma á samræmdu eftirliti og regluverki með orkugeiranum á innri markaði Evrópusambandsins.
Ísland hefur þá sérstöðu að tengjast ekki orkumarkaðnum í Evrópu, líkt og til dæmis Noregur, sem selur raforku til Evrópu um sæstreng.
Aðspurður hvers vegna þessi sjónarmið séu áberandi í umræðunni, um að fullveldisafsala felist í þriðja orkupakkanum, sagði hann: „Þetta er svona hugsunarháttur eins og fullveldið sé kaka, svona fullveldiskaka, sem er hægt að sneiða niður í búta og þá bara hverfur fullveldið. Eins og kaka sem fer niður í munn fólks og bara hverfur.“