Forsætisnefnd Alþingis telur ekki skilyrði til staðar fyrir því að fram fari almenn rannsókn á endurgreiddum aksturskostnaði þingmanna. Þá hefur forsætisnefnd komist að þeirri niðurstöðu að sú athugun sem þegar hefur farið fram á endurgreiddum aksturskostnaði Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, ásamt skýringum Ásmundar á akstrinum, „leiði til þess að ekkert hafi komi fram sem gefi til kynna að hátterni hans hafi verið andstætt siðareglum fyrir alþingismenn“.
Nefndin telur einnig að ekki hafi komið fram neinar upplýsingar eða gögn sem sýni að til staðar sé grunur um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað við fram settar kröfur um endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar sem kæra beri sem meint brot til lögreglu. Þetta kemur fram í svari forsætisnefndar við erindi Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Undir það skrifar Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Björn Leví skilaði inn endurteknu erindi til forsætisnefndar í lok október þar sem kom fram að teldi að rannsaka þurfi allar endurgreiðslufærslur á aksturskostnaði þingmanna. Í þetta skiptið bað hann sérstaklega um að endurgreiðslur á aksturskostnaði Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, verði rannsakaðar.
Forsætisnefnd sendi Ásmundi Friðrikssyni bréf vegna málsins sem hann svaraði 23. nóvember síðastliðinn. Þar hafnar hann því sem hann kallar aðdróttanir Björns Levís. Ásmundur hafnar því einnig með öllu að hann hafi misnotað aðstöðu sína með því að leggja fram misvísandi reikninga eða reikninga vegna persónulegs aksturs. „Ásakanir um fjársvik eru rangar. Ég hef gert grein fyrir ferðum mínum í hvert sinn eins og fylgt þar í einu og öllu reglum um þingfararkostnað, vinnureglum skrifstofu Alþingis og leiðbeiningum um endurgreiðslu ferðakostnaðar.“