Frá árinu 2006 hefur Íslandspóstur varið rúmlega 5,8 milljörðum króna í fjárfestingar í fasteignum, lóðum, áhöldum, tækjum og bifreiðum. Á móti hafa eignir fyrir rúmar 600 milljónir króna verið seldar. Nettófjárfesting á tímabilinu er því rúmir fimm milljarðar króna. Þetta má lesa úr ársskýrslum Íslandspósts frá árinu 2006 til dagsins í dag og frá þessu er greint í umfjöllun Fréttablaðsins í dag.
Ef síðustu tvö ár eru skoðuð má sjá að nettófjárfestingar tímabilsins nema rúmum milljarði króna. Við það bætast á þessu ári minnst 700 milljónir króna vegna stækkunar flutningamiðstöðvar fyrirtækisins að Stórhöfða. Langstærstan hluta fjárfestinga undanfarinna ára má rekja til nýrra tækja og bifreiða samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins
Á árunum 2005 og 2006 tók Íslandspóstur ákvarðanir um að stækka hlutdeild fyrirtækisins á almennum flutningamarkaði en fyrirtækið er einnig í samkeppni þegar kemur að dreifingu auglýsingablaða, bæklinga og sölu á prentvörum og ýmiss konar smávöru. Samtímis þessu hafa stöðugildi Íslandspóst fjölgað um tæplega níutíu stöðugildi frá árinu 2014, þar af um rúmlega fjörutíu milli áranna 2016 og 2017, og launakostnaður hækkað um 1,4 milljarða króna.
Benda á tap Íslandspósts vegna láns til dótturfélaga
Meirihluti fjárlaganefndar lagði til að Íslandspósti yrði veitt neyðarlán upp á 1,5 milljarð króna sem var milljarða viðbótarlán við þeim 500 milljónum sem félagið hafði nú þegar fengið vilyrða fyrir. Viðskiptabanki Íslandspóst hafði lokað á frekar skammtímalánveitingar og lán ríkisins átti að koma í veg fyrir að fyrirtækið færi í þrot. Tilkynnt hefur verið að bág rekstrarstaða félagsins megi rekja til samdráttar í tekjum af alþjónustu og hversu langan tíma það hefur tekið fyrir Póst- og fjarskiptastofnun að taka ákvarðanir um gjaldskrárbreytingar. Sú breytingartillaga meirihluta fjárlaganefndar var hins vegar dregin til baka og liggur nú til skoðunar í fjárlaganefnd.
Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur hins vegar fram að eftirlitsaðilar hafa bent á að slæma rekstrarstöðu Íslandspósts sé ekki aðallega að rekja til aukins kostnaðar við alþjónustu. Í athugasemdum Póst- og fjarskipstastofnunnar við skýrslu um rekstrarskilyrði Íslandspósts, frá árinu 2014, er meðal annars bent á að hundruð milljóna hafi tapast vegna lánveitinga til dótturfélaga Íslandspósts í samkeppnisrekstri. Íslandspóstur, m.a. vegna fjárfestingu í prentsmiðju Samskipta og láns til ePósts dótturfélags Íslandspósts.
Vill úttekt á Íslandspósts
Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, Ólafur Stephenssen, telur nauðsynlegt að unnin verði óháð úttekt á því hvernig samkeppnisrekstri Íslandspósts ohf. hefur verið háttað. Áður hefur Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, sagt að til greina komi að gera slíka úttekt. Ólafur telur að ef ráðist verður í úttekt þá yrði að fá utanaðkomandi aðila til verksins. Hann bendir á að Póst- og fjarskiptastofnun telji það ekki sitt hlutverk að rannsaka slíkt og þá er Ríkisendurskoðun vanhæf þar sem stofnunin endurskoði reikninga Íslandspósts.
„Við höfum verið gagnrýnin á þetta mál. Okkur finnst nauðsynlegt að áður en Alþingi ákveður hvort þessir peningar verða lánaðir eða lagðir í fyrirtækið, því það er alls óvíst að hægt sé að greiða þá til baka, liggi fyrir hvernig Íslandspóstur hefur hagað sér í samkeppnisrekstri og hve miklu fyrirtækið hefur tapað á þeim ævintýrum sínum,“ segir Ólafur Stephensen í samtali við Fréttablaðið
Starfsemi Íslandspóst sem fellur undir samkeppni er um sextíu prósent af starfsemi félagsins en sá hluti starfsemi Íslandspóst lítur ekki gjaldskráreftirliti Póst og fjarskiptastofnunar samkvæmt athugasemdum stofnunarinnar. Samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins liggur fyrir sátt Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts frá síðasta ári um aðgerðir til að styrkja samkeppnisaðstæður á póstmarkaði. Í sáttinni viðurkenndi Íslandspóst engin brot og var ekki gerð sekt af hálfu Samkeppniseftirlitsins en þurfti að breyta ýmsu í verklagi og nefnd var sett til að hafa eftirlit með sáttinni. Hana skipa þrír, einn tilnefndur af Íslandspóst og tveir óháðir. Annar þeirra óháðu sat á árunum 2014-2017 með Ingimundi Sigurpálssyni, forstjóra Íslandspóst, í stjórn Isavia og er nú varamaður í stjórn. Samkvæmt Fréttablaðinu.
„Það er mjög áleitin spurning hvort eigendastefnu ríkisins vegna opinberra hlutafélaga sé ekki ábótavant. Þar segir að stjórnir slíkra félaga skuli leitast við að efla samkeppni en stjórn Íslandspósts virðist misskilja það sem svo að fyrirtækið skuli fara í samkeppni við allt sem hreyfist,“ segir Ólafur og bendir á að fyrirtækið selji sælgæti, bækur og minjavöru, dótturfyrirtæki þess vinni að hugbúnaðargerð og annað sé í prentþjónustu. Þá sé fyrirtækið á fullu í frakt-, flutninga- og sendlaþjónustu.