Efnahags og viðskiptanefnd hefur lagt fram breytingartillögu við frumvarp fjármálaráðherra um rafræna birtingu á álagningu skatta og gjalda. Í breytingartillögunni er lagt til að gengið sé lengri í frumvarpinu og að stjórnsýslulög sæti heildrænni endurskoðun með það að markmiði að skýrt verði að rafræn birting sé meginreglan en ekki undantekning þegar kemur að álagningu skatta og gjalda. Í tillögunni segir að íslensk stjórnsýsla hafi sætt gagnrýni fyrir hversu stutt á veg hún er komin hvað varðar eflingu rafrænnar stjórnsýslu í samanburði við önnur Norðurlönd.
Viðskiptaráð telur að ekki sé eftir neinu að bíða
Nefndinni barst umsögn frá Viðskiptaráði Íslands þar sem greint var frá því að ráðinu þætti frumvarpið vera skref í átt til starfrænnar stjórnsýslu en að það telji að mögulegt sé að fara aðra og betri leið í stafvæðingu (e. digitalisation) íslenskrar stjórnsýslu. Viðskiptaráðið leggur til að breytt verði stjórnsýslulögum að því leyti að stjórnvöldum verði skylt að bjóða ávallt upp á stafræna miðlun upplýsinga og þjónustu þegar þess er kostur í stað þess að slíkt sé valkvætt líkt og nú er í lögum. Meginreglan ætti að vera sú að öll þjónustu hins opinbera ætti að vera boðin stafrænt nema sérstaklega sé kveðið á um annað og það rökstudd sérstaklega, segir í umsögninni. Viðskiptaráð hvetur til þess að frumvarpið verði samþykkt en kallar jafnframt eftir því að farið verði í heildstæða vinnu við stafvæðingu íslenskrar stjórnsýslu.
Ísland í 60. sæti
Í umsögn Viðskiptaráðsins er fjallað um hversu illa Ísland kemur út í alþjóðlegum samanburði í innleiðingu tækni í opinberri þjónustu. Í skýrslu WIPO um alþjóðlega nýsköpunargetu landa „Global Innovation Index Report 2018“ er löndum raðað á hverju ári eftir nýsköpunargetu þeirra og árangri. Í skýrslunni er meðal annars skoðað hversu langt lönd eru komin í stafvæðingu þjónustu hins opinbera en á þeim lista er Ísland í 60. sæti af 126 sætum, í sæti á milli Perú og Bangladesh. Í umsögn Viðskiptaráðs segir að lakur árangur hins opinbera í þessum efnum stingi í stúf við stöðu Íslands þega að það kemur að almennri innleiðingu og notkun á tækni í samfélaginu en þar er Ísland í 5.sæti á meðal 125 ríkja.
Viðskiptaráð segist fagna því að stjórnvöld hafa lýst því yfir að markmið þeirra sé að árið 2020 verði stafræn samskipti meginsamskiptaleið borgarans við hið opinbera en Viðskiptaráð telur að til þess að ná markmiðinu þurfi stjórnvöld að nálgast viðfangsefnið með heildstæðari hætti en gert er í frumvarpi fjármálaráðherra.
Kalla eftir heildrænni skoðun á stjórnsýslulögum
Efnahags- og viðskiptanefnd barst einnig umsögn um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en sambandið segist styðja frumvarpið en leggur til að forsætisráðuneytið hefji endurskoðun á stjórnsýslulögum svo skýrt sé að allar stjórnvaldsákvarðanir megi birta rafrænt og að ekki þurfi að tilgreina slíkt sérstaklega í öðrum lögum. Í breytingartillögu nefndarinnar kemur fram að nefndin taki undir þessar umsagnir Sambandsins og Viðskiptaráðs og niðurstaða nefndarinnar er að betur megi ef duga skuli í þessum málum. Nefndin leggur því til að stjórnsýslulög sæti heildrænni endurskoðun með það að markmiði að skýrt verði að rafræn meginregla en ekki undantekning þegar kemur að álagningu skatta og gjalda.
Ríkisútgjöld lækka um 120 milljónir á ári.
Í greinargerð frumvarpisins um rafræna birtingu kemur fram að kostir rafvæðingarinnar eru minni ríkisútgjöld og aukin hagræðing. Í frumvarpinu segir að rafrænar tilkynningar hafi jákvæð fjárhagsleg áhrif í för með sér fyrir ríki og sveitarfélög. En með því að falla frá skriflegum tilkynningum um álagningu skatta og gjalda þá er talið að útgjöld ríkisins dragist saman um 120 milljónir króna á ári. Sú upphæð er samanlagður kostnaður ríkisaðila af póstburðargjöldum.
Óbein áhrif af breytingunum eru einnig jákvæð fjárhagslega, svo sem minna umstang við umsýslu skjala, betra aðgengi að gögnum og hagkvæmari vistun af hálfu álagningaraðila, einstaklinga og lögaðila, segir í frumvarpinu. Einnig er rafræn birting almennt mun einfaldari í framkvæmd en bréfasendingar. Samkvæmt því sem segir í frumvarpinu þá hafa allir skattgreiðendur hagsmuni af þessum breytingum.