Í dag þegar klukkuna vantar tíu mínútur í sex ætla krakkar að safnast saman og ganga kröfugöngu frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll og halda í framhaldinu á mótmælafund á Austurvelli. Krakkarnir ætla að krefjast valda en öllum krökkum er boðið að slást í hópinn og mæta með mótmælaskilti þar sem fram kemur hverju þau vilja breyta á Íslandi. Mótmælafundurinn er skipulagður af átta krökkum sem taka nú þátt í gerð sviðsverks undir stjórn Salvarar Gullbrár Þórarinsdóttur.
Vildi veita börnum vettvang til að tjá sig um stjórnmál
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir er á lokaári sínu á sviðshöfundarbraut í Listaháskóla Íslands og fyrir einstaklingsverk sitt á þessari önn ætlar hún í samstarfi við átta krakka á aldrinum átta til ellefu ára að setja á svið gjörning og stofna stjórnmálaflokk krakka. Verkið verður sýnt í Listaháskólanum í Laugarnesi dagana 9. og 10. desember næstkomandi.
Salvör segir í samtali við Kjarnann að hugmyndin að verkinu hafi fæðst út frá því að hún hafi vilja gera verk með börnum en þegar hún vann sem blaðamaður þá tók hún stundum viðtöl við börn og fannst þau oft hafa mikið til málanna að leggja.
„Ég vissi að ef ég ynni verkið með börnum þá myndi ég vilja gera það á pólitískum forsendum af því börn er hópur sem hefur engin völd í samfélaginu. En allar ákvarðanir stjórnvalda hafa með einhverjum hætti áhrif á börn hvort sem það er núna eða í framtíðinni,“ segir Salvör.
Salvör bendir á að mörg af stærstu pólitísku málefnum nútímans snúa að réttindum barna, þar á meðal loftlagsmál en ljóst er að það gríðarstóra vandamál muni verða þeirra í framtíðinni. Salvör segir að í undirbúningsvinnunni með börnunum fyrir verkið hafi komið í ljós í samræðum þeirra að börn séu meðvituð um allskyns samfélagsleg málefni, til dæmis nefndu börnin hungursneyðina í Jemen.
„Mig langaði að heyra hvað þau hefðu að segja, gefa þeim vettvang til að tjá sig um stjórnmál og eigin stöðu,“ segir Salvör enn fremur.
Stofna stjórnmálaflokk fyrir krakka
Í íslensku stjórnarskránni má finna ákvæði um félaga og fundafrelsi. Í því felst að að allir eiga rétt á því að stofna félög í löglegum tilgangi, þar með talið stjórnmálaflokk án þess að sækja um leyfi fyrir því. Það eru engin skilyrði í lögum sem þarf að uppfylla til að stofna stjórnmálaflokk, enda er það réttur hvers og eins að stofna flokk eða samtök um tiltekin markmið eða hugsjónir. Þetta ákvæði gildir um alla þátttakendur samfélagsins, líka börn en sérstakt ákvæði um funda- og félagafrelsi er að finna í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Salvör bendir á að þó börn megi ekki kjósa þá þurfi það ekki að koma í veg fyrir þau taki þátt í stjórnmálum. Stjórnmálafélög án kosningaréttar geti til dæmis haldið fundi og samþykkt yfirlýsingar sem mögulegt sé síðan að senda til fjölmiðla og þannig megi hafa áhrif á umræðuna í þjóðfélaginu. Einnig geti stjórnmálafélög staðið fyrir mótmælum og öðrum gjörningum, til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. „Mér finnst ekkert galið við það athuga hvað börn hafa að segja, að þau hafi fleiri tækifæri til að tjá sig og öðlist meiri völd í samfélaginu,“ segir Salvör.
Hvernig væri heimurinn ef börn hefðu meiri völd?
Salvör auglýsti eftir krökkum fyrir verkið á Facebook, talaði við krakka sem hún þekkti og bað kennara að láta krakka vita að til boða stæði að taka þátt í stofnun stjórnmálaflokks. Aðspurð segir hún að mörg börn hafi sótt um en hún ákvað að láta regluna „fyrstir koma fyrstir fá“ gilda og að lokum voru átta krakkar á aldrinum 8 til 11 ára sem taka þátt í verkinu. Samkvæmt Salvöru taka krakkarnir þátt af mismunandi ástæðum, sum hafa áhuga á stjórnmálum, aðrir á leiklist eða fréttamennsku. Að sögn Salvarar hafa krakkarnir ólíkar skoðanir sem þau eru ekki hrædd við að deila sín á milli. Börnin skipulögðu mótmælagönguna sjálf og báðu hana um að stofna Facebook-viðburð til að auglýsa gönguna og bjóða öðrum krökkum að slást í hópinn.
Í sviðsverkinu sem sett verður á stokk í desember munu krakkarnir taka völd á sviðinu og stofna sinn eigin stjórnmálaflokk. Salvör segir hugmyndina vera þá að áhorfendur sem og þátttakendur geti ímyndað sér hver þróunin gæti orðið ef börn hefðu meiri völd í samfélaginu. „Yrði heimurinn grimmari eða réttlátari?“ Áhugavert verður að sjá hvernig atburðarásin þróast á sviðinu og hver áherslumál hins nýja stjórnmálaflokks krakka verða.
Meðal þeirra baráttumála sem komið hafa upp í umræðum krakkanna er jafnrétti fyrir karla og konur, lengri fangelsisdómar og að götur borgarinnar verði fylltar af sælgæti. Salvör segir að ekkert virðist börnunum óviðkomandi og því virðist sem þau hafi að mörgu leyti auðugra ímyndunarafl og fleiri hugmyndir um hvað hægt sé að gera í stjórnmálum en fullorðnir.
Hvetur alla til að mæta
Aðspurð segir Salvör að það geti vel verið að verkefnið haldi áfram eftir sýninguna ef áhugi er fyrir því. Hún hvetur alla sem vilja að mæta fyrir framan Hallgrímskirkju klukkan 17:50 í dag og taka þátt í kröfugöngu Krakkaveldisins. Hún segir að öllum sé einnig velkomið að mæta á sýninguna hennar og krakkanna þann 9. og 10. desember í Listaháskólanum í Laugarnesi. Nánari upplýsingar um mótmælafundinn má finna hér.