Skúli Mogensen, aðaleigandi og forstjóri WOW air, keypti sjálfur fyrir um 770 milljónir króna í skuldabréfaútboði félagsins sem lauk um miðjan september. Frá þessu greinir hann í bréfi til annarra skuldabréfaeigenda sem hann sendi fyrr í dag og greint er frá í Markaði Fréttablaðsins.
Í bréfinu segir hann enn fremur að hann hafði verið sannfærður um að útboðið myndi duga WOW air til að halda út þar til að hægt yrði að skrá félagið á markað en að nokkrir aðilar hafi sýnt WOW air áhuga, þar á meðal Icelandair.
Í Markaðnum segir að kröfuhafar og stjórnvöld hafi fylgst náið með stöðu mála og krafist strangari greiðsluskilmála en áður auk þess sem olíuverð hafi náð nýjum hæðum eftir skuldabréfaútboðið.
18. september var tilkynnt um að skuldabréfaútboðinu hefði verið lokað og að WOW air hefði náð í allt að 60 milljónir evra. Ekki var greint frá því hverjir hefðu tekið þátt í skuldabréfaútboðinu að öðru leyti en að það væri bæði innlendir og erlendir fjárfestar. Viðmælendur Kjarnans sögðu að á meðal erlendu fjárfestanna séu vogunarsjóðir sem átt hafa stöður á Íslandi.
Alls kyns fyrirvarar voru settir inn í endanlega skilmála sem fólu meðal annars í sér að WOW air þyrfti að standast regluleg álagspróf sem þurftu að sýna að eigið fé félagsins ekki lægra en 25 milljónir dala fyrstu tólf mánuðina eftir útgáfuna og 30-35 milljónir dala eftir það. Auk þess kom fram að vaxtagreiðslum sem féllu til vegna skuldabréfaútboðsins yrðu færðar á fjárvörslureikning.
Í byrjun nóvember var svo tilkynnt um að Icelandair ætlaði að kaupa WOW air ef ákveðnir fyrirvarar yrðu uppfylltir. Uppgefið kaupverð á WOW air , sem átti að greiða með hlutum í Icelandair, var um tveir milljarðar króna miðað gengi Icelandair þegar tilkynnt var um kaupin. Þau kaup virðast nú í uppnámi.