Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að samkeppnisrekstur Íslandspósts sé orðinn með hreinum ólíkindum. Það sé eins og stjórn fyrirtækisins hafi misskilið eigendastefnu ríkisins fyrir þau félög þar sem ríkið á hlut, þar sem stendur að þau félög skuli stuðla að samkeppni. „Það er eins og að stjórn Íslandspósts hafi misskilið þetta þannig að hún eigi að keppa við allt sem hreyfist helst[...]„Ef maður fer í pósthús þá er það í samkeppni við sjoppuna í næstu götu, við bóka- og ritfangaverslunina, við leikfangabúðina, við minjagripaverslunina, af því að pósturinn er kominn á fullt í smásölu á öllum þessum vörum.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem frumsýnt verður í kvöld klukkan 21:00. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Íslandspóstur hefur varið tæplega sex milljörðum króna í fjárfestingar á síðustu tólf árum. Þeim fjármunum hefur meðal annars verið varið í að kaupa upp fyrirtæki á nýjum samkeppnismörkuðum eða skapa fyrirtækinu stöðu á slíkum. Sú samkeppni er meðal annars við fyrirtæki í aldreifingu á pósti á borð við auglýsingabréfum, í hugbúnaðargerð, í fraktfluningum, í sendibílaþjónustu, í sendlaþjónustu og prentsmiðjurekstri „Þetta nær ekki nokkurri átt að eitthvað ríkisfyrirtæki, með meðgjöf í formi einkaréttar á léttustu bréfunum, sé svo í svona víðtækri samkeppni við einkafyrirtæki. Öllum þessum mörkuðum er prýðilega sinnt,“ segir Ólafur.
Hann bendir einnig á að svo virðist vera að samkeppnisreksturinn sem Íslandspóstur hefur ráðist í gangi alls ekki vel.
Ein birtingarmynd þess er sú að Íslandspóstur hefur farið fram á að fá 1,5 milljarða króna lán úr ríkissjóði sem er nú til umfjöllunar við afgreiðslu Alþingis á fjárlögum næsta árs. „Við erum alveg sannfærð um að það greiðsluþrot sem stefnir í er að hluta til að minnsta kosti vegna rangra ákvarðana í þessum samkeppnisrekstri. Það er enginn opinber stofnun sem lítur á það sem hlutverk sitt að kveða upp úr um það hvort það fari á svig við lög að færa peninga á milli einkaréttar og samkeppnisrekstrar“
Félag atvinnurekenda hefur farið fram á það við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að framkvæmd verði óháð úttekt á starfsemi Íslandspósts. „Eina leiðin sem þingmenn, sem eiga að skuldbinda einn og hálfan milljarð af okkar peningum, inn í þessa hít sem þessi rekstur virðist vera að verða, eina leiðin fyrir þá að fá skýr svör við spurningum um það hvaða ákvarðanir hafa verið teknar á undanförnum árum og hverjir bera á byrgð á þeim er að það verði gerð einhverskonar óháð úttekt.“