Niðurstaða forsætisnefndar Alþingis, að hún telji ekki skilyrði til staðar fyrir því að fram fari almenn rannsókn á endurgreiddum aksturskostnaði þingmanna, felur ekki í sér neina staðfestingu þess að fyrirkomulag þessara mála sé í lagi á þinginu. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar og áheyrnarfulltrúi í nefndinni á Facebook-síðu sinni í dag.
Í frétt Kjarnans frá því í gær kemur fram að forsætisnefnd Alþingis telji ekki skilyrði til staðar fyrir því að fram fari almenn rannsókn á endurgreiddum aksturskostnaði þingmanna. Þá hefur forsætisnefnd komist að þeirri niðurstöðu að sú athugun sem þegar hefur farið fram á endurgreiddum aksturskostnaði Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, ásamt skýringum Ásmundar á akstrinum, „leiði til þess að ekkert hafi komi fram sem gefi til kynna að hátterni hans hafi verið andstætt siðareglum fyrir alþingismenn.“
Nefndin telur einnig að ekki hafi komið fram neinar upplýsingar eða gögn sem sýni að til staðar sé grunur um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað við fram settar kröfur um endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar sem kæra beri sem meint brot til lögreglu. Þetta kemur fram í svari forsætisnefndar við erindi Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Undir það skrifar Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Björn Leví skilaði inn endurteknu erindi til forsætisnefndar í lok október þar sem kom fram að hann teldi að rannsaka þyrfti allar endurgreiðslufærslur á aksturskostnaði þingmanna. Í þetta skiptið bað hann sérstaklega um að endurgreiðslur á aksturskostnaði Ásmundar Friðrikssonar yrðu rannsakaðar.
Þorsteinn segir að það væri kannski nær lagi að segja að reglur um þessi mál væru svo loðnar og óljósar að í raun sé engin leið að fullyrða hvort þingmenn séu að fara eftir þeim eða ekki.
„Staðreyndin er sú að fyrirkomulag á endurgreiðslu útlagðs kostnaðar er allt of laust í reipunum hjá Alþingi. Með þessum orðum er ég ekki að leggja neinn dóm á greiðslur til einstakra þingmanna, heldur einfaldlega benda á að núverandi fyrirkomulag er algjörlega ófullnægjandi að mínu viti,“ segir hann.
Björn Leví á hrós skilið
Þorsteinn telur alvarlegast að í núverandi fyrirkomulagi sé ekki að finna neina afmörkun milli persónulegs kostnaðar vegna þátttöku í prófkjörum eða kosningabaráttu. „Það hlýtur að vera í hæsta máta óeðlilegt að þingmenn geti háð kosningabaráttu sína á kostnað þingsins. Aðstöðumunurinn gagnvart öðrum frambjóðendum sem ekki eiga sæti á þingi er augljós og mjög óeðlilegur.“
Hann segir það vera löngu tímabært að taka þessar reglur til endurskoðunar. „Við alþingismenn eigum ekki að vera með óútfylltan tékka frá Alþingi til fjárútláta vegna fundarsókna og ferðalaga. Það er þvert á móti mjög eðlilegt að mínu viti að þar séu settar mjög skýrar leikreglur um hvað og hversu mikið eðlilegt sé að þingið endurgreiði.
Til að kóróna allt njóta þingmenn í raun skattfríðinda af greiðslum sem samkvæmt hefðbundinni túlkun Ríkisskattstjóra teldist til skattskyldra hlunninda vegna ákvæða í lögum um Þingfararkaup þar að lútandi. Björn Leví Gunnarsson á hrós skilið fyrir baráttu sína í þessum efnum. Hans barátta hefur fyrst og fremst beinst að greiðslum til þingmanna almennt. Og sú barátta hefur skilað auknu gagnsæi og örugglega talsvert betri meðferð á opinberu fé,“ segir Þorsteinn.
Niðurstaða Forsætisnefndar Alþingis felur ekki í sér neina staðfestingu þess að fyrirkomulag þessara mála sé í lagi á...
Posted by Þorsteinn Viglundsson on Wednesday, November 28, 2018
„Alvarlegur leki“ úr forsætisnefnd
Í frétt mbl.is kemur fram að Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis kannist ekki við að forsætisnefnd hafi rætt það á fundi sínum að Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata yrði mögulega látinn sæta ábyrgð samkvæmt siðareglum fyrir að hafa sent erindi til nefndarinnar um akstursgreiðslur til þingmanna.
„Ég kannast ekki við hótun af einu eða neinu tagi. Það er afbökun á því sem þarna fór fram,“ segir Steingrímur, sem vill annars ekki ræða þetta mál frekar þar sem umræða í viðkvæmum málum í forsætisnefnd sé trúnaðarmál. Fundargerðir forsætisnefndar eru trúnaðarmál. Við virðumst búa í þessu tilviki við mjög alvarlegan leka út úr forsætisnefnd,“ segir hann og kveðst harma það í samtali við mbl.is.
Fram kom í tilkynningu frá Pírötum á mánudag að óheimilt sé samkvæmt siðareglum að láta Björn Leví sæta ábyrgð í málinu. Rökstutt erindi um brot á reglunum megi aldrei bitna á sendanda þess. „Þessi hótun getur haft alvarleg fælingaráhrif og takmarkað verulega áhrifamátt siðareglnanna,“ segir í tilkynningunni.
Þingmaður óskar eftir að leynd af minnisblaði verði aflétt
Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata segir Steingrím fara ranglega með trúnaðarskyldur forsætisnefndar í fréttum. Þetta kemur fram í tölvupósti til fjölmiðla sem hann sendi í dag.
Þar kemur enn fremur fram að hann hafi óskað eftir minnisblaði frá skrifstofu Alþingis um „Trúnaðarskyldur forsætisnefndarmanna“ í ársbyrjun 2017. Það minnisblað sýni svart á hvítu að Steingrímur fari með rangt mál.
Jón Þór hefur því sent forseta Alþingis póst þar sem hann óskar eftir því að hann aflétti leynd af því minnisblaði og birti það opinberlega.