Þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins hæddust að MeToo-umræðunni í hljóðupptökunni af Klaustursbarnum. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, og Bergþór Ólason, þingmaður Flokks fólksins, sögðust hafa sínar eigin MeToo-sögur af Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, og sögðu hana hafa áreitt sig hvorn í sínu tilvikinu.
Albertína sagði í samtali við Stundina að Gunnar Bragi hefði hringt í sig og beðið hana afsökunar og sagt að ekkert af því sem fram hefði komið í samtalinu hefði verið satt. Hún segist jafnframt vera kjafstopp yfir orðum Gunnars Braga og Bergþórs um meintar sögur þeirra af henni. Hún segir það mjög óþægilegt að láta ljúga svona sögum upp á sig.
„Hann gaf mér leyfi til að segja ykkur að hann væri tilbúinn til að bera þetta til baka og bað mig afsökunar,“ segir Albertína í samtali við Stundina. „Það er hrikalegt að vera ásakaður um eitthvað sem gerðist ekki.“
Aðspurð um viðburðina sem mennirnir tala um segist hún ekki kannast við atvikin. „Ég er eiginlega bara kjaftstopp. Mér er rosalega illt í hjartanu yfir öllum þessum samtölum sem þeir áttu þarna. Ég er hreinlega orðlaus. Þetta er bara ekki rétt.“
„Við eigum sem sagt MeToo-sögu“
Gunnar Bragi og Bergþór sögðu báðir að Albertína hafi gengið á þá með kynlíf. Bergþór lýsir því að í hans tilviki hefði það gerst á herrakvöldi íþróttafélagsins Vestra en Gunnar Bragi sagði sinn atburð hafa átt sér stað í samkomuhúsinu í Hnífsdal. Frá þessu er greint á Stundinni.
„Við eigum sem sagt MeToo sögu,“ sagði Bergþór á einum tímapunkti í samtalinu.
„Léstu þig hafa það?“ spurði einhver í kjölfarið.
„Nei, ég gerði það sem betur fer ekki,“ sagði Bergþór.
„Það voru ýmsir sem sögðu „take one for the team“ en Beggi var ekki til,“ sagði Sigmundur Davíð og uppskar hlátur.
„Ég var orðinn þreyttur á herrakvöldi Vestra,“ sagði Bergþór.
„Hversu hart gekk hún fram?“ var spurt í kjölfarið.
„Hún var að tosa buxurnar af hælunum á mér [...] Ég vakna úr nærbuxunum.“
„Hvað, á ég að ríða henni?“
Í framhaldinu deildi Gunnar Bragi sinni sögu. „Það var svipað. Ég var nýlega orðinn ráðherra og þetta var í kringum kosningar, 2009-10 […] Það er einhver hátíð í samkomuhúsinu í Hnífsdal. Ég mæti þarna sem frambjóðandi ásamt fleirum. Ég er allt í einu farinn að dansa við þessa stúlku […] Ég sagði bara nei […] en það var bara suðað. Þá var bara eins og einhver hefði verið líflátinn. Hún var brjáluð, hún trylltist, hún grenjaði og öskraði. Ég bara hugsaði, hvað, á ég að ríða henni? Það var algjörlega kreisí.“ Viðstaddir hlógu að lokinni frásögninni, segir í umfjöllun Stundarinnar.
„Þetta er sú þingkona sem hélt lengstu MeToo ræðuna. Og við sátum bara „what the fuck is going on“,“ bætti Bergþór við.
„Þessir menn munu aldrei ná bata nema þeir opni sig, og það í opnuviðtali,“ sagði Sigmundur Davíð og uppskar hlátur.
„Það getur vel verið að við ákveðnar aðstæður, ég ætla ekki að segja hvað aðstæður, að ég þurfi að labba að henni og segja: Ertu búin að gleyma því þegar þú reyndir að nauðga mér?“ sagði Gunnar Bragi og aftur var hlegið.
„Ég mun segja, ertu búin að gleyma því þegar þú reyndir að nauðga mér í alvöru?“ bætti Bergþór við. „Ég er búinn að sjá það að það er MeToo hætta af hálfu nokkurra einstaklinga. Ég er bara búinn að sirkúlera út þau eintök sem mesta MeToo hættan er af og þetta eintak er á þeim lista.“
Gerðu grín að Freyju Haraldsdóttur
Þingmenn Miðflokksins og Flokk fólksins gerðu líka grín að Freyju Haraldsdóttur og kalla hana eyju, sama kvöld á barnum Klaustur. DV greinir frá því hvernig á upptökunni, sem DV og Stundin hafa undir höndunum, megi heyra einn þingmann herma eftir sel þegar talið berst að Freyju. Upptakan er nokkuð óskýr og því ekki fyllilega ljóst hver þeirra hermdi eftir sel.
Freyja segist í samtali við DV að hún hafi ekki áhuga á því að ræða nánar hegðun þingmanna. Hún segir þetta dæma sig sjálft og hún vilji ekki fara niður á þeirra plan. „Veistu ég nenni ekki að eyða orku í þetta,“ segir Freyja.