Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, skrifar á Facebook síðu sína í kvöld, að hann hafi nú þegar beðið Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, afsökunar á því hvernig hann talaði um hana í samtali við aðra þingmenn flokksins á bar nýverið.
Stundin segir frá því að Bergþór Ólason hafi kallað Ingu Sæland, formann og stofnanda Flokks fólksins, „húrrandi klikkaða kuntu“.
DV og Stundin fengu upptökurnar sendar nafnlaust og hafa í kvöld skrifað fréttir upp úr þeim, en í fréttum þeirra hefur meðal annars komið fram að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, hafi talað með niðrandi hætti um stjórnmálakonur.
„Í kvöld hafa verið fluttar fréttir af hittingi sex þingmanna á hótelbar í liðinni viku. Eins og fram hefur komið varð mér þar hressilega á í messunni hvað munnsöfnuð varðar, í garð manneskju sem hafði ekkert sér til sakar unnið til að verðskulda þá yfirhalningu. Þar virðist ég hafa notað orðfæri sem er mér framandi og ég veit ekki til að ég hafi áður notað.
Ég ræddi við Ingu Sæland í kvöld og bað hana afsökunar á framgöngu minni. Um samstarfið við Flokk fólksins vil ég segja að það hefur verið með miklum ágætum síðasta árið, enda málefnalegur samhljómur um marga hluti.
Flest þekkjum við að hafa í lokuðu rými talað óvarlega, og jafnvel af ósanngirni um annað fólk, þá sérstaklega þegar öl er haft um hönd, en það breytir því ekki að svona á maður ekki að tala um fólk,“ segir Bergþór Ólason á Facebook síðu sinni.
Sigmundur Davíð hefur þegar tjáð sig um málið á Facebook síðu sinni, og segir það alvarlegt ef það eru stundaðar hleranir á einkasamtölum stjórnmálamanna.