Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir dapurlegt að skynja þau viðhorf sem fram komi í ummælum þingmanna Miðflokksins þegar varla sé liðið ár frá upphafi MeToo-umræðunnar þar sem konur í stjórnmálum meðal annarra stigu fram og greindu frá reynslu sinni. Þingmönnum beri skylda til að umgangast embætti sín af virðingu. Þetta segir hún í samtali við blaðamann Vísis.
Hún rifjar upp að Metoo-byltingin hafi byrjað fyrir ári en þar hafi konur í stjórnmálum ekki hvað síst átt frumkvæði og stigið margar fram til að segja frá sinni upplifun af kynbundinni orðræðu og kynferðislegri áreitni.
„Það er dapurlegt að skynja þessi viðhorf ekki síst í garð stjórnmálakvenna sem skína út úr þessum samtölum sem þarna hafa birst,“ segir Katrín. Þótt þingmennirnir hafi ekki verið í opinberum erindagjörðum hafi þeir verið innan um almenning þar sem allir gátu hlýtt á það sem þeirra fór á milli.
Þingmönnum ber skylda til að umgangast embættin af virðingu
„Okkur ber skylda til að umgangast embætti okkar af virðingu og ég verð að segja að mér finnst þetta ekki gott fyrir okkur stjórnmálamenn og okkur þingmenn. Þetta mun hafa áhrif á virðingu Alþingis og virðingu stjórnmálanna og það er mjög dapurlegt,“ segir Katrín við Vísi.
Þetta muni einnig hafa áhrif á samskipti fólks og flokka í þinginu. Þetta afhjúpi það kynbundna orðalag sem vakin hafi verið athygli á í me-too byltingunni gagnvart konum og öðrum hópum sem hún sjálf kannist við.
„Þar sem er talað um stjórnmálakonur með tilteknum hætti. Mjög niðrandi hætti sem er engum til sóma sem kemur að. Auðvitað hefði ég vonað að við værum komin lengra í jafnréttisátt en að fólk væri enn á þessum stað. En auðvitað er þetta eitthvað sem maður kannast við,“ segir hún.
Þeir þingmenn sem þarna eigi hlut að máli verði að gera það upp við sig hvernig þeir bregðist við.