Hlutabréf hrundu í verði í kauphöllinni í dag en fjárfestar tóku fréttunum um að fallið hefði verið frá kaupum Icelandair á WOW air, illa. Vísitalan lækkaði um tæplega 3 prósent, en flest félög lækkuðu verulega í verði, en mesta lækkunin varð á bréfum Icelandair, 12,66 prósent.
Óvissa er nú uppi í íslensku efnahagslífi, og viðmælendur Kjarnans á markaði sögðust skynja það á öllum sem rætt væri við.
Ljóst er að það gæti orðið mikið högg fyrir íslenskt efnahagslíf ef WOW air fer í þrot, en Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi félagsins, reynir nú að bjarga félaginu með því að fá nýjan fjárfesti að því, en hann sagði starfsfólki frá því í morgun að það myndi skýrast í næstu viku, hvort að því yrði.
Starfsfólki hefur verið lofað launum um þessi mánaðarmót, en ljóst er að rekstur félagsins stendur tæpt, svo ekki sé meira sagt.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um þessa atburðarás, undanfarnar viku og mánuði.
Eitt félag hækkaði í verði, Marel, um 0,4 prósent.
Nýjar verðbólgutölur komu síðan frá Hagstofu Íslands í dag, og mælist verðbólga nú 3,3 prósent og hefur farið stighækkandi undanfarin misseri. Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5 prósent.