Gengi bréfa í Icelandair Group hefur fallið um 13,16 prósent það sem af er degi. Bréfin féllu líka um svipað hlutfall í gær í kjölfar þess að tilkynnt var um að félagið væri hætt við að kaupa WOW air. Öll önnur félög sem skráð eru í Kauphöll Íslands hafa hækkð umtalsvert í verði, að HB Granda undanskildu en engin viðskipti hafa verið með bréf þess félags í dag.
Mest hafa bréf í Festi hækkað, um rúmlega tíu prósent, en félagið er eldsneytissali WOW air. Bréf í Festi höfðu lækkað umtalsvert í gær en nú hefur orðið algjör viðsnúningur á. Þar skiptir mestu að tilkynnt var um það í gærkvöldi að bandaríska félagið Indigo Partners ætlaði sér að kaupa hlut í WOW air.
Tilkynnt var um kaup Icelandair á WOW air 5. nóvember síðastliðinn. Þann dag hækkaði virði hlutabréfa í Icelandair um rúmlega 39 prósent. Sú hækkun er nú að langmestu leyti gengin til baka og virði bréfa í félaginu í síðustu viðskiptum var 8,42 krónur á hlut. Það er einungis 6,6 prósent hærra verð en var bréfunum í upphafi þess dags sem tilkynnt var um kaupin á WOW air, sem nú hefur verið fallið frá.
Helstu forsendur kaupsamnings Icelandair Group á WOW air, sem nú hefur verið fallið frá, voru þær að samkomulag myndi nást við leigusala WOW air, að staðfesting myndi fá á því að forgangsréttur flugmanna myndi ekki eiga við um flugmenn WOW air og að samkomulag myndi nást við skuldabréfaeigendur WOW air. Ekkert af þessu var leitt til lykta áður en að ákveðið var að hætta við kaupin. Þá var sérstakur fyrirvari um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar, sem Deloitte og Logs framkvæmdu. Það grunnmat liggur fyrir en er trúnaðarmál en í kynningunni segir að „fyrstu niðurstöður gáfu til kynna meiri fjárþörf en gert var ráð fyrir auk annarra atriða.“