Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að ohf-væðing fyrirtækja í eigu ríkisins hafi verið stórgölluð.
Fyrirtæki á borð við Íslandspóst, RÚV og Isavia hegði sér í raun eins og ríki í ríkinu. „Það er hægt að halda því fram að stjórn hlutafélags sem fær engar leiðbeiningar eigi að passa upp á að hlutafélagið þrífist sem best. Þá vantar upp á eigendstefnuna, að stjórnmálamenn setji einhvern ramma. Það getur bara ekki verið að ríkið eigi að setja upp fyrirtæki sem keppa við allt sem hreyfist.“
Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Ólaf í þættinum 21 á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í vikunni. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Ólafur segir að það sé hægt að sjá dæmi um þessa hegðun hjá öllum opinberum hlutafélögunum. „Hjá Ríkisútvarpinu eru menn í samkeppni við einkaframtakið í einhverjum bisness sem kemur því sem við héldum að væri hlutverk Ríkisútvarpsins ekkert við, eins og útleiga á stúdíói og eitthvað svoleiðis. Isavia er á ótal sviðum í samkeppni við einkaframtakið. Þar er reyndar forstjóri Íslandspósts stjórnarformaður. Ríkið er orðið stærsti nærfata- og snyrtivörusali landsins og fyrirtækið reynir að leggja steina í götu þeirra sem reyna að keppa við það til dæmis í bílastæðastæðaþjónustu í Keflavík og svo framvegis.“
Forstjóri Íslandspósts, Ingimundur Sigurpálsson, sagði í viðtali við Kastljósi nýverið, þar sem hann var spurður út í sölu fyrirtækisins á gjafavöru og sælgæti. Ingimundur sagði að það væri þakklát þjónusta fyrir þá sem þyrftu að fylla upp í pakka sem þeir ætluðu að senda. Ólafur segir þann málflutning vera kostulegan. „Þetta er náttúrulega eins og bara að ÁTVR væri að selja grænar baunir og Cocoa Puffs á útsölustöðum sínum úti á landi.“
Hægt er að horfa á viðtalið við Ólaf í heild sinni hér að neðan: