Árleg herferð Amnesty International, lýstu upp myrkrið, byrjaði í gær en tilgangur herferðarinnar er að vekja athygli á undirskriftaherferð Amnesty International Bréf til bjargar lífi sem í ár er helguð tíu baráttukonum sem sæta grófum mannréttindabrotum.
Lýstu upp myrkrið er stærsta gagnvirka ljósainnsetning á Íslandi. Hún fer fram fyrir framan Hallgrímskirkju frá 30. nóvember til 2. desember. Hugmyndin er sú að gestir geti lýst upp myrkrið sem mannréttindabrotin eru og tekið þátt í ljósainnsetingunni með því að skrifa undir málin á spjaldtölvu fyrir framan kirkjuna.
Í ár er herferðin tileinkuð baráttu tíu hugrakkra kvenna, allstaðar að úr heiminum, sem hætta lífi sínu í þágu betra heims. Konurnar tíu eru frá Brasilíu, Egyptalandi, Indlandi, Marokkó, Keníu, Suður-Afríku, Íran, Kirgistan, Venesúela og Úkraínu. Þær berjast allar fyrir betra samfélagi á mismunandi hátt í sínu heimalandi, meðal þeirra baráttumála sem þær berjast fyrir eru réttindi hinsegin fólks, jafnrétti kynjanna, gegn dauðarefsingum ásamt fleiru.
Hundruðir dæmd í fangelsi fyrir friðsæl mótmæli
Á meðal þessara kvenna baráttukonan Nawal Benaissa en hún er 36 ára, fjögurra barna móðir frá Marokkó. Í heimalandi sínu berst hún fyrir bættum mannréttindum en í héraðinu hennar í Marokkó, búa íbúar við misrétti, spillingu og vanrækslu af hendi marokkóskra stjórnvalda. Nawal hefur verið ein þeirra sem leitt hefur mótmælin þar í landi en í byrjun árs hlaut hún tíu mánaða skilorðsbundin dóm fyrir að hvetja til lögbrota á samfélagsmiðlum.
Síðustu ár hefur verið róstusamt í Rif héraði, héraðinu hennar Nawal. Berbar eru þar í miklum meirihluta en þeir telja sig ekki sitja við sama borð og aðra landsmenn. Mótmælin hófust í október 2016, í hafnarborginni al-Hoceima eftir að íbúi var drepinn af ruslabíl stjórnvalda. Mótmælin brutust hratt út um héraðið og síðan landið allt en upp úr þessum jarðvegi spratt ný, pólitísk hreyfing sem kallast Al-Hirak al-shaabi.
Hirak hreyfingin hefur náð miklum vinsældum undanfarin tvö ár í Marokkó en hreyfingin berst fyrir uppbyggingu atvinnulífs, þróun innviða og upprætingu spillingar í Rif héraðinu og mótmælir spillingu stjórnvalda. Í Rif héraðinu er atvinnuleysi yfir 65 prósent og mikil þörf á uppbyggingu í heilbrigðis- og menntamálum.Yfir sumarið 2017 brutust út fjöldi mótmæla sem stjórnvöld reyndu að banna trekk í trekk. Í yfirlýsingu Amnesty um málið segir að lögreglan hafi beitt mótmælendum ofbeldi og að yfir sumarið hafi stjórnvöld handtekið yfir 400 mótmælendur, þar á meðal börn. Fjölmiðlamaður, fyrrum leiðtogi og fjöldi annarra mótmælenda hafa verið dæmd án réttlátrar málsmeðferðar. Mannréttindasamtök um allan heim hafa gagnrýnt stjórnvöld í Marokkó fyrir að leyfa ekki friðsæl mótmæli.Barátta fyrir betra framtíð
Nawal er ein þeirra sem gegnir forystu innan Hirak hreyfingarinnar og sem leiðtogi hennar hefur hún staðið fyrir friðsamlegum mótmælum og gagnrýnt stjórnvöld á samfélagsmiðlum. Nawal hefur vakið mikil athygli fyrir baráttu sína innan hreyfingarinnar og Facebook-síðan hennar er með yfir 80.000 fylgjendur.
„Ég fæddist og var alin upp í Rif, svæði þar sem vanræksla af hálfu stjórnvalda, misrétti og spilling ræður ríkjum. Ég tek þátt í friðsælum mótmælum af því ég krefst að réttinda mín séu virt og stjórnvöld virði réttindi íbúa Rifs héraðsins til heilbrigðisþjónustu, menntun og vinnu.“ segir Nawal á Facebook-síðu sinni.
Samkvæmt yfirlýsingu Amnesty hafa stjórnvöld þar í landi reynt að þagga niður í Nawal en hún hefur verið handtekin fjórum sinnum á fjögurra mánaða tímabili. Þar sem hún var meðal annars haldin í varðhaldi og krafin um að loka Facebook- síðu sinni. Á sama tíma hafa öryggissveitir í Marokkó handtekið hundruð mótmælenda fyrir það eitt að tjá stuðning sinn við hreyfinguna á Facebook.
Í febrúar 2018 hlaut Nawal tíu mánaða skilorðsbundinn dóm og sekt fyrir að „hvetja til lögbrota“ á samfélagsmiðlum. Yfir sumarið 2017 hafði hún hvatt íbúa héraðsins til að mæta á mótmælin og gagrýnt stjórnvöld fyrir ósanngjarna meðferð þeirra á mótmælendum. Nawal hefur áfrýjað dómnum og flúið til annarrar borgar í Marokko til komast hjá stöðugu eftirliti en samkvæmt Amnesty halda árásar á hendur henni af hálfu stjórnvalda áfram.
„Að taka þátt í friðsælum mótmælum og krefjast grunnmannréttinda er ekki glæpur“ segir í yfirlýsingu Amnesty um mál Nawalu. Í yfirlýsingunni segir einnig að dómur Nawal Benaissa sé hluti af stórfelldri herferð stjórnvalda gegn Hirak hreyfingunni og leiðtogum hennar. Nawal óskar þess að vera frjáls til að heyja baráttu sína fyrir betri framtíð fyrir sig og börnin sín en með bréfi til bjargar Nawal getur þú krafið forsætisráðherra Marokkó um að koma í veg fyrir frekari árásir af hálfu stjórnvalda á Nawal.
Á heimasíðu Íslandsdeildar Amnesty er hægt að lesa um öll tíu mismunandi baráttumál kvennanna og hægt er skrifa undir bréf.