Í dag var boðað til mótmælafundar á Austurvelli í tilefni þeirra „yfirgengilegu fordóma og mannfyrirlitningu“ sem sex þingmenn höfðu frammi á fundi sínum á Klaustur bar. Í yfirlýsingu frá skipuleggjendum mótmælanna segir að þingmennirnir sex hafi ekki aðeins ráðist með orðum á þá einstaklinga sem þeir nefndu í samræðum sínum, heldur á alla hópa sem barist hafa fyrir jöfnuði í marga áratugi. Á mótmælafundinum héldu m.a. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins og Sanna Magdalena Mörtudóttur borgarfulltrúi ræður.
Krefjast tafarlausra afsagna, lögreglurannsóknar, upptöku nýrrar stjórnarskrár og endurmenntun alþingismanna
Skipuleggjendur mótmælanna við Austurvöll í dag hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau krefjast þess að allir þingmennirnir í hinu svokallaðu „klausturs-máli“, þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, segi af sér tafarlaust, ekki einungis úr flokkum sínum heldur frá störfum sínum á Alþingi. Í yfirlýsingunni segir „Þessar kröfur eru ekki kurteisislegar beiðnir, þetta eru kröfur um tafarlausar breytingar.“
Ásamt afsögn þingmannanna er krafist þess að tafarlaus rannsókn verði hafin á lögbrotum og brotum á siðareglum Alþingis sem „komst upp um“ í upptökunum. Meðal brotanna sem nefnd eru í yfirlýsingunni er drykkja á vinnutíma, sem varðar þingskapalög, hrossakaup Bjarna Benediktssonar við Gunnar Braga og Sigmund Davíð varðandi Geir H. Haarde og sendiherrastöður, sem varða við almenn hegningarlög og skýrt brot á fjölda liða í siðareglum alþingismanna.
Jafnframt er krafist þess í yfirlýsingunni að breytingar verði gerðar á málum þannig að reka megi þingmenn af Alþingi gerist þeir brotlegir við lög eða siðareglur alþingismanna. Auk þess krefjast þau tafarlausar endurmenntar allra starfsmanna Alþingis í jafnréttisfræðslu og eineltismálum.
Í yfirlýsingunni er einnig krafist þess að frumvarp stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá verði tekið upp án tafar og að í kjölfarið verði farið í það að taka upp nýja stjórnarskrá sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu. Undir þessar kröfur rita þau Andri Sigurðsson, Alexandra Kristjana Ægisdóttir , Arndís Jónasdóttir og Júlía Sveinsdóttir.
Kröfur hagsmunasamtaka
Kröfur hagsmunasamtaka eru einnig settar fram í yfirlýsingunni. Þar á meðal er krafa um tafarlausa afsögn þingmannanna sett fram af Öryrkjabandalaginu, Kvennahreyfingunni og Femínistafélagi Háskóla Íslands. „Sú fyrirlitning á fólki sem hefur komið fram í orðum tíunda hluta þingheims, sýnir að þingmennirnir eru með öllu ófærir um að gegna trúnaðarstörfum fyrir almenning. Þeir verða að taka pokann sinn. Flóknara er það ekki.“ segir í yfirlýsingu Öryrkjabandalagsins.
Ásamt afsögn þingmanna krefst Kvennahreyfingin þess að allir þingmenn sitji í gegnum tíu klukkustunda jafnréttisfræðslu sem verður sameiginlega unnin af þeim félagssamtökum sem best þekkja til. Ásamt því skora Samtökin'78 á þingmenn og alla stjórnmálaflokka að samþykkja aldrei kvenfyrirlitningu, hinseginfóbíu eða fötlunarfordóma, „Eitruð orðræða grefur undan öryggi jaðarsettra hópa og við minnum ykkur á að ábyrgð ykkar er gífurleg.“ segir í yfirlýsingu samtakanna. NPA miðstöðin krefst þess að „alþingisfólk hafi þekkingu á mannréttindasamningum og lögum og temji sér að virða kjósendur sína alla, minnihlutahópa sem aðra.“