Á síðustu árum hefur umræða um heimilisofbeldi opnast að mörgu leyti hér á land og efnt hefur verið til vitundarvakningar um málið á mörgum sviðum samfélagsins. Áður þótti heimilisofbeldi vera einkamál, ekki eitthvað sem yfirvöld skiptu sér að heldur aðeins trúnaðarmál heimilanna. Á þessu ári hefur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skilgreint kynbundið ofbeldi sem heimsfarald, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins fullyrt að heimilisofbeldi sé ekki einkamál heldur samfélagslegur harmleikur og núverandi ríkisstjórn sett heimilisofbeldi sem eitt af áherslumálum sínum í stjórnarsáttmála sinn.
Á Íslandi hafa verið framin 22 morð á síðustu 15 árum en helmingur þeirra morða tengist heimilisofbeldi. Árið 2017 bárust lögreglu 890 tilkynningar um heimilisofbeldi, 251 einstaklingar dvöldu í kvennaathvarfinu og um helmingur þeirra sem dvelja í kvennaathvarfinu eru af erlendum uppruna.
Í heiminum eru að meðaltali 136 konur myrtar á dag af maki sínum eða fjölskyldumeðlim. Alls voru 87.000 konur myrtar í heiminum árið 2017, tæplega sextíu prósent þeirra voru myrtar af maka sínum eða fjölskyldumeðlim. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá UNODC skrifstofa Sameinuðu þjóðanna.
Meiri en helmingur þeirra kvenna sem hafa verið myrtar, voru myrtar af maka eða fjölskyldumeðlim
Í skýrslunni segir að þessar tölur sýni að heimili séu í raun hættulegasti staðurinn fyrir konur þar sem meirihluti þeirra morða sem framin eru á konum tengjast heimilisofbeldi. Fimmtíu þúsund konur voru myrtar af hendi maka eða ættingja, eða 58 prósent af öllum þeim konum sem myrtar voru árið 2017. Af þeim voru u.þ.b. 30.000 konur myrtar af maka sínum og 20.000 af náskyldum ættingja. Það þýðir að á hverjum klukkutíma eru konur myrtar af einhverjum sem þær þekkja.
Skýrslan „Global study on homicide: Gender related killings of women and girls“ er heildstæð rannsókn á morðum í heiminum og þá sérstaklega kynbundnum morðum á konum og stúlkum. Hún var birt fyrir rúmri viku á degi Sameinuðu þjóðanna sem helgaður er baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.
Í heildina hafa mun fleiri karlar en konur fallið fyrir hendi annarra í heiminum en karlar voru um 80 prósent þeirra sem voru myrtir árið 2017. Á hinn bóginn eru konur 82 prósent þeirra fórnarlamba sem myrt eru af maka, samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar. Ef ættingjar eru taldir með þá eru konur 64 prósent þeirra sem myrtir eru af mökum eða fjölskyldumeðlimum samanborið við 36 prósent karla.
Í skýrslunni segir að þessar niðurstöður sýna að jafnvel þó menn séu frekar fórnarlömb manndrápa í heiminum, þá tengjast morð á konum í mun meira mæli kynjamisrétti og staðalímyndum kynjanna. Samkvæmt skýrslunni eru slík morð oftast ekki einstaka atvik heldur oft á tíðum „hæsta stig“ heimilisofbeldis eða kynbundins ofbeldis.
Ljóst er að stjórnvöld um heim allan þurfi að grípa til mun víðtækari aðgerða ef taka skal á þessu vandamáli, ef koma á í veg fyrir fleiri morð segir í skýrslunni. Nauðsynlegt sé að stjórnvöld bjóði upp á fjölbreyttari og samræmdari þjónustu, þar sem lögreglan, dómskerfið, heilbrigðis- og félagsþjónusta vinna saman gegn kynbundnu ofbeldi. Í skýrslunni segir að auk þess þurfi karlar að taka meiri þátt í að berjast gegn kynbundnu ofbeldi, heimilisofbeldi og leggja sitt af mörkum í að breyta þeim menningarlegu viðmiðum sem enn virðast ríkja um staðalímyndir kynjanna.
Kynbundið ofbeldi er heimsfaraldur
António Guterres, aðalframkvæmdarstjóri Sameinuðu þjóðanna, segir kynbundið ofbeldi vera heimsfarald. Hann segir þetta vandamál svartan blett á öllum samfélögum heimsins og helstu hindrunina í öllum öðrum þróunarverkefnum Sameinuðu þjóðanna í tilkynningu sem hann birti í kjölfar niðurstöðu skýrslunnar.Guterres segir að kynbundið ofbeldi taki á sig margvíslegar myndir, allt frá kynferðislegri áreitni, heimilisofbeldi, limlestingum á kynfærum kvenna, mansali til lífshættulegra áverka sem leiða til dauða. Yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gegn konum skilgreinir ofbeldi gegn konum sem ,,ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.”
Guterres segir jafnframt að ofbeldi gegn konum skaði ekki aðeins þolendur heldur hafi það einnig víðtækar afleiðingar á fjölskyldu og samfélög. Hann segir kynbundið ofbeldið vera pólitískt málefni og segir það tengjast valdi og stjórnun í samfélaginu okkur. „Í grunninn er ofbeldi gegn konum og stúlkum djúpstæður skortur á virðingu. Að menn geti ekki viðurkennt jafnrétti og borið virðingu fyrir konum, það er brot á grunnmannréttindum.“ segir í Gutteres að lokum.
Helmingur manndrápa á Íslandi tengjast heimilisofbeldi
Í Kynlegum tölum, árlegum bækling mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, sem kom út í mars 2016 kemur fram að af þeim 16 konum sem myrtar voru á Íslandi á árunum 1980 til og með 2015 voru 11 þeirra myrtar af skyldum eða tengdum einstaklingum sem þýðir að 69 prósent þeirra morða voru heimilisofbeldismál. Á síðasta ári bárust lögreglunni 890 tilkynningar um heimilisofbeldi og 251 einstaklingar dvöldu í Kvennaathvarfinu. Samkvæmt Kvennaathvarfinu var helmingur þeirra kvenna af erlendum uppruna.
Brotaþolar heimilisofbeldis eru 74,4 prósent konur, samkvæmt niðurstöðum tilraunaverkefnis á höfuðborgarsvæðinu. Meirihluti þeirra kvenna voru á aldrinum 21 til 40 ára eða um 55 prósent þeirra. Í niðurstöðunum kemur fram að um 23 prósent þolenda heimilisofbeldis séu konur af erlendum uppruna frá tæplega 40 þjóðlöndum, langflestar frá Póllandi en þarnæst Víetnam og Tælandi.
„Hafi ofbeldi einu sinni verið beitt gegn maka gerist það nær örugglega aftur og stigmagnast nema gripið sé inn í með markvissum aðgerðum,“ segir á vef Jafnréttisstofu. Samkvæmt Jafnréttisstofu hefur ein af hverjum fimm þunguðum konum á Íslandi upplifað heimilisofbeldi. Það gera um 900 konur á ári.
Heimilisofbeldi ekki einkamál
Lögreglan á Íslandi skilgreinir ofbeldi sem heimilisofbeldi ef það fullnægir tveimur skilyrðum. Fyrri forsendan er sú að gerandi og brotaþoli tengist nánum böndum, séu t.d. skyld eða tengd. Til dæmis getur verið um að ræða núverandi eða fyrrverandi maka, fólk í hjónabandi eða sambýlisfólk, börn, systkini, foreldra eða forráðamenn. Seinni forsendan er sú að það verður að vera um að ræða brot á hegningarlögum eða barnaverndarlögum s.s. líkamsárás, kynferðisbrot, hótanir, eignaspjöll, kúgun, vændi, mansal eða hliðstæð brot. Vettvangur brots getur verið hvar sem er og einskorðast ekki við heimilið.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri segir í grein sinni á Jafnréttisstofu að miklir vankantar hafi verið á kerfi lögreglunnar varðandi heimilisofbeldismál áður en þeim var breytt nýlega. Samkvæmt Sigríði náði lögreglan sjaldnast að ljúka rannsókn þessara mála á fullnægjandi hátt og ekki hafi náðst fram sakfellingar þó svo að um mjög alvarleg brot væri að ræða.
Samkvæmt grein Sigríðar er verklaginu þannig háttað í dag að lögreglan og félagsþjónustan eru í samstarfi sem felst meðal annars í því að lögreglan óskar ávallt eftir aðstoð félagsþjónustu þegar um er að ræða útköll þar sem grunur leikur á að um heimilisofbeldi sé að ræða. Tilgangurinn sé að styrkja þolendur. Sigríður leggur áherslu á að kerfið verði að koma í veg fyrir endurtekin brot og tryggja að þau mál sem komi upp fái greiða leið í gegnum kerfið. Hún segir að einn mikilvægasti þátturinn í verklaginu sé að tryggja að brotaþolar og gerendur fái viðeigandi og fullnægjandi félags-, sálræna og lögfræðilega aðstoð.
Sigríður fullyrðir jafnframt að heimilisofbeldi sé ekki einkamál sem rúmast innan friðhelgi heimilisins, heldur samfélagslegur harmleikur. Hún segir að traust til lögreglunnar og kerfisins verður að vera til staðar í þessum málaflokki og að aðstoð, eftirfylgni og stuðningur mun leiða til þess að fleiri leiti sér hjálpar.
„Skilaboðin eru skýr. Ofbeldi á ekki að líðast og ofbeldi gegn konum og börnum þarf aðra nálgun en hina hefðbundnu kerfisnálgun sem hefur verið allt of ríkjandi hingað til,“ segir Sigríður að lokum.
Þetta er þjóðfélagslegt mein
Í júní á þessu ári var tekið upp nýtt verklag við móttöku þolenda heimilisofbeldis á bráðadeild Landspítalans. Hrönn Stefánsdóttir, verkefnisstjóri á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis, sagði í viðtali við Vísi að verklagið myndi samræma ferli sem fer af stað þegar kemur að móttöku þolenda heimilisofbeldis á bráðadeild. Markmið verklagsins er að allir starfsmenn vinni saman í að taka vel á móti öllum og að þolendum líði ekki eins og þeir þurfi að taka „mjög þung skref“ til þess að leita til spítalans. Meðal breytinga sem gerðar voru á verklaginu er að nú þurfa þolendur ekki að bíða á biðstofunni eftir skoðun.
Á hverju ári leita að meðaltali 130 til 150 konur á bráðadeild sem láta vita að þær sé að koma vegna áverka eftir heimilisofbeldi en Hrönn telur að fjöldi þeirra sem koma þangað eftir heimilisofbeldi sé hærri en tölfræðin gefur til kynna. Þekkt er að einstaklingar segi ekki frá því að ofbeldið hafi verið af hendi maka, fyrrverandi maka eða einhvers sem þær eru í nánu sambandi við.
Hrönn segir þennan málaflokk mjög mikilvægan og bendir á að fólk þurfi að kljást við afleiðingar sem geta meðal annars verið líkamlegar, andlegar og fjárhagslegar vegna ofbeldisins allt sitt líf. „Það er sem betur fer verið að opna á þennan málaflokk sem hefur alltaf verið til, en áður fyrr var talið að þetta væri einkalíf og trúnaður heimilanna. En þetta er það ekki. Þetta er þjóðfélagslegt mein og hefur alvarlegar afleiðingar fyrir þolendur og börn,“ segir Hrönn.
Aðgerðir stjórnvalda
Á heimasíðu mannréttindaskrifstofu Íslands segir: „Kynbundið ofbeldi brýtur gegn mannréttindum og grundvallarfrelsi kvenna. Yfirvöldum ber skylda til að leita allra leiða til að uppræta þann smánarblett sem ofbeldi gegn konum er á íslensku samfélagi og tryggja stjórnarskrárvarin réttindi þeirra til mannhelgi og jafnréttis.“Heimilisofbeldi er eitt af áherslumálunum í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Ýmsar breytingar hafa átt sér stað á síðasta ári, nýtt verklag hefur verið komið á laggirnar hjá lögreglunni og ný móttökustöð fyrir þolendur ofbeldis, Bjarkarhlíð, var opnuð en þar geta fullorðnir þolendur ofbeldis fengið samhæfða þjónustu og ráðgjöf undir sama þaki.
Ríkisstjórnin hefur einnig fullgilt Istanbúl-samninginn, sem er samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn heimilisofbeldi og alls ofbeldi gegn konum. Ásamt því hefur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipað stýrihóp um heildstæðar úrbætur er varðar kynferðislegt ofbeldi. Katrín sagði á ráðstefnu um heimilisofbeldismál í október síðastliðnum að ofbeldi gegn konum sé orsök eða afleiðing kynjamisréttis. Samfélagið þurfi að takast á við þetta misrétti í öllum sínum birtingarmyndum.„Ég er ánægð með að jafnréttismál eru ein af forgangsmálum þessarar ríkisstjórnar,“ sagði Katrín.
Ásmundur Einar Daðason félags og jafnréttismálaráðherra lagði einnig nýlega fram þingsályktunartillögu um áætlun fyrir árin 2019 til 2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Áætlunin er víðtæk og aðgerðirnar snúa að mismunandi birtingu ofbeldis í íslensku samfélagi. Í greinargerðinni segir: „Alþingi álykti að ofbeldi sé alvarlegt þjóðfélagsmein sem vinna þurfi gegn með öllum tiltækum ráðum. Meginmarkmið stjórnvalda með aðgerðaáætluninni verði að stuðla að vakningu um málefnið með forvörnum og fræðslu, bæta verklag og málsmeðferð innan réttarvörslukerfisins og efla stuðning við þolendur.“
Þú átt VON
Jafnréttisstofa hlaut styrk úr áætlun Evrópusambandsins um réttindi, jafnrétti og borgararétt til að standa straum að verkefninu Byggjum brýr Brjótum múra – Samvinna í heimilisofbeldismálum. Meginmarkmið verkefnisins er að uppræta ofbeldi í nánum samböndum á Íslandi og er lagt upp með að tilkynningum til lögreglu muni fjölga um 20 prósent á þeim 30 mánuðum sem verkefnið stendur yfir.
Vitundarvakningin ber titilinn „Þú átt VON“ og er lögð áhersla á að sýna þolendum ofbeldis að það er von á betra lífi. Í vitundarvakningunni er lögð áhersla á að draga fram reynslu þolenda og gerenda á að komast út úr aðstæðunum með stuðningi fagfólks og sýnd sú fjölbreytta þjónusta sem stendur fólki tilboða. Einnig er lögð áhersla á að gera úrræðin sýnileg í samfélaginu. Sérstök áhersla er lögð á viðkvæma hópa en samkvæmt rannsóknum eru þeir einkum konur af erlendum uppruna, konur með fötlun og konur sem eiga von á barni. Hluti af vitundarvakningunni eru myndbönd sem greina frá reynslu þolenda heimilisofbeldis.