Alþingismenn fá hærri persónuuppbót en félagsmenn VR og Eflingar, eða um 180 þúsund krónur. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að hann hefði viljað sjá þessu öðruvísi farið í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Desemberuppbót hans félagsmanna eru 89 þúsund krónur fyrir fullt starf og 48.000 krónur í orlofsuppbót eða samtals 139.000 krónur. Þingmenn fá 181.050 í persónuuppbót sem er orlofs- og desemberuppbót sláð saman í eina tölu.
„Ég held að ríkið ætti að sjá sóma sinn í því að hætta þessari sjálftöku ef svo má kalla það. Þó að það sé búið að leggja niður kjararáð þá er komin hyldjúp gjá á milli vinnumarkaðarins og Alþingis vegna ákvarðana kjararáðs. Þetta er ekki til að hjálpa stöðunni,“ segir Ragnar Þór.
„Þetta er í rauninni alveg fáránlegt“
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, birti launaseðil sinn á Facebook í gær þar sem hann vakti athygli á desemberuppbót þinganna. Í viðtali við DV segir Björn uppbótina allt of háa. „Ég átta mig ekki á því hvernig þetta er reiknað út. Þetta er í rauninni alveg fáránlegt.“
Samkvæmt frétt DV virðist ekki hægt að nálgast upplýsingar um hvernig desemberuppbót þingmanna er reiknuð á netinu. Á vefsíðu kjararáðs er vísað til sérstakrar undirsíðu á vef Alþingis um þessi kjör en sú síða liggur niðri. Ragnar Þór segir að ef þetta er eitthvað sem kjararáð hefur ákveðið þá er örugglega erfitt að komast til botns í því og fá rök fyrir því af hverju þessar greiðslur eru svona háar. „Okkur hefur til dæmis ekki enn tekist að fá skýringar á til dæmis hækkunum kjararáðs til æðstu embættismanna ríkisins,“ segir Ragnar Þór í Morgunútvarpinu á Rás 2.
„Desemberuppbótin er persónuuppbót og á því ekki vera neitt hlutfall af launum eða vera í samræmi við hvort laun eru há eða lág,“ segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. Samkvæmt launaseðli hans er desemberuppbótin, eða það sem stundum er kallað jólabónus, 181.050 krónur.
Bara svona til að hafa það á hreinu hvernig þetta virkar með persónuuppbótina og annað.
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Sunday, December 2, 2018
Kjararáð hefur verið lagt niður
Ákvarðanir um launakjör þingmanna voru teknar af Kjararáði sem nú hefur verið lagt niður og hlutverk þess fært inn í fjármálaráðuneytið. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra lagði fram frumvarp í síðustu viku um að laun kjörinna fulltrúa verði bundin í lög og endurskoðuð einu sinni á ári.
„Það breytir ekki þessari stöðu sem er komin upp. Skaðinn er skeður. Að leggja niður kjararáð og ætla síðan að fara að reikna þetta eitthvað öðruvísi hér eftir, það breytir ekki eða brúar ekki þá gjá sem er á milli og hefur dýpkað ef eitthvað er á milli vinnumarkaðarins og stjórnmálanna,“ bætir Ragnar við viðtalinu á Rás 2.
Aðspurður segir hann að þessi desemberuppbót þingmanna eigi ekki eftir að hjálpa í komandi kjaraviðræðum.
Hann bendir á að ellilífeyrisþegar og öryrkjar „skrapa algjörlega botninn“ þegar að það kemur að uppbótum og greiðslum í jólamánuðinum en hann segir þetta einmitt hópana sem geta átt sérstaklega erfitt á þessum tíma árs. Því skorar hann að lokum á stjórnmálamenn að gera eitthvað fyrir þá sem standa höllum fæti fyrir þessi jól. Ragnar bendir á að þingmenn gætu jafnvel notað sína eigin desemberuppbót í það.
Athugasemd blaðamanns: Fréttinni var breytt vegna nýrra upplýsingu um persónuuppbót þingmanna.