Guðmundur Ingi Kristinsson, nýr þingflokksformaður Flokks fólksins, segir að allir sex þingmennirnir sem sátu að drykkju á Klaustri Bar eigi að segja af sér. Þetta kemur fram í frétt RÚV í dag.
Hann segir framkomu þeirra og orðaval óásættanlega og að hún verði ekki liðin. Guðmundur Ingi segir að sér blöskri það hvernig Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hafi komið fram við Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann Bjartrar framtíðar. Freyja skrifari pistil sem birtist á Kjarnanum í gærkvöldi þar sem hún lýsir samtali hennar og Sigmundar.
Guðmundur Ingi yfirgaf fund velferðarnefndar Alþingis í morgun, samkvæmt frétt RÚV. Hann sagði að þar hefði málefni Miðflokksins verið til umræðu og því hefði hann ekki talið sér stætt að taka þátt í þeim fundi.
Óásættanleg framkoma
„Það eru mikil verkefni framundan og það verður úr mörgu að spila til að koma hlutunum í lag aftur. Við verðum að fara öll að horfa í eigin barm, sérstaklega þeir menn sem hafa hagað sér svona, þeir varða að fara að taka sig til og segja af sér,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við RÚV.
„Það er held ég eina lendingin. Þetta er alveg ótrúlegt sem er að koma þarna fram, og alltaf að koma meira og meira. Það sem mér blöskrar langmest er hvernig þeir koma fram við fatlaða einstaklinga, og þetta nýjasta dæmi með Sigmund Davíð og hvernig hann kemur fram við Freyju. Þetta er óásættanlegt. Við getum ekki liðið þetta,“ segir hann.