Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði í viðtali við Stöð 2 í kvöld, í beinni útsendingu, að honum fyndist miður að saklaust fólk hefði dregist inn í umræðu um samtöl hans og fimm annarra þingmanna á Klaustur bar, 20. nóvember síðastliðinn.
Hann endurtók það sem hann hefur sagt til þessa, að honum þætti miður að hafa ekki beitt sér með þeim hætti, að samræðurnar myndu stöðvast.
Nefndi hann enn fremur, að hann hefði orðið vitni að svipuðum samtölum hjá öðrum þingmönnum kollegga sína á þingi, og spurði hvort hann ætti að bera ábyrgð á því hvað aðrir þingmenn segðu um aðra þingmenn. Nefndi hann að það hefði verið talað mjög illa um marga þingmenn, meðal annars hann sjálfan.
Aðspurður, sagðist hann telja að þetta hefðu verið umhverfishljóð sem í samtalinu milli þingmannanna hafa verið nefnda selahljóð, þegar Freyja Haraldssonar barst í tal.
Sigmundur Davíð sagði að engin hefði gert grín að fötlun hennar í þessu samtali, og varðist hann spurningum fréttamanns um þau mál, og sagði að þetta gæti þess vegna hafa verið hjól að bremsa.
Þeir sex þingmenn sem sátu á Klaustur bar 20. nóvember voru Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, Miðflokki, og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson Flokki fólksins. Bergþór og Gunnar Bragi eru farnir í leyfi og Karl Gauti og Ólafur hafa verið reknir úr Flokki fólksins. Enginn hefur sagt af sér þingmennsku, og stendur það ekki til, samkvæmt svörum þingmannanna til þessa.
Freyja Haraldsdóttir, segir í grein, sem hún skrifaði á vef Kjarnans, að hún hefði ekki fengið neina formlega afsökunarbeiðni vegna þessarar umræðu. „Ég frábið mér frekari símtöl þar sem ófatlaður karlmaður í valdastöðu talar niður til mín og reynir að útskýra fyrir mér hvað eru fötlunarfordómar og hvað ekki. Eina eðlilega símtalið í stöðunni væri að biðjast einlæglega afsökunar, án nokkurra útskýringa eða málalenginga, og segjast í ljósi gjörða sinna ætla að axla ábyrgð á ofbeldinu sem við vorum beittar og segja af sér,“ sagði Freyja í grein sinni.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, baðst í dag, við upphaf þingfundar, afsökunar á framferði þingmannanna, en siðanefnd Alþingis hefur nú verið virkjuð og mun hún fjalla um framgöngu þingmannanna.