Fylgi Miðflokksins féll um fimm prósentustig eftir að klaustursupptökurnar voru gerðar opinberar í fjölmiðlum. Fylgi Flokks fólksins stóð hins vegar í stað samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Könnunin var gerð 3. nóvember til 2. desember.
Fjórir þingmenn Miðflokksins og tveir þingmenn Flokks fólksins urðu uppvísir að því að svívirða aðra þingmenn, einkum konur, og minnihlutahópa á barnum Klaustur, þann 20. nóvember síðastliðinn. Samræðurnar voru teknar upp og mikið hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum að undanförnu.
Í síðustu viku, áður en upptökurnar af Klaustri voru birtar, var fylgi Miðflokksins 13 prósent en nú mælist það átta prósent. Flokkur fólksins mælist með sex prósenta fylgi í könnun Gallups og er ekki marktækur munur á fylgi hans síðan Klausturs-málið kom upp.
Sjálfstæðisflokkurinn stærstur en stuðningur við ríkisstjórnina minnkar
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi, 24 prósent og Samfylkingin næst mest, 19 prósent. Vinstri græn mælast með 11 prósent og Píratar rúm 10 prósent. Viðreisn er með tæp tíu prósent og Framsóknarflokkurinn sjö.
Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar um fjögur prósentustig á milli mánaða, samkvæmt könnuninni. Rúmlega 46 prósent þeirra sem tóku afstöðu segjast styðja hana. Litlar breytingar hafa verið að fylgi flokka milli mánaða og ekki tölfræðilega marktækar.
Íslendingar eru hlynntir afsögn alþingismannanna sex
Á milli 74 prósent og 91 prósent Íslendinga eru hlynnt afsögn alþingismannanna sex, samkvæmt nýrri könnun Maskínu-rannsókna. Flestum finnst að Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Miðflokksins eigi að segja af sér en næstum jafn háu hlutfalli finnst að Bergþór Ólason eigi einnig að gera það. Rétt innan við þremur af hverjum fjórum finnst að Anna Kolbrún Árnadóttir, einnig þingmaður Miðflokksins, eigi að segja af sér þingmennsku en það er lægsta hlutfallið.
Í öllum tilvikum finnst miklum meirihluta landsmanna að allir þingmennirnir ættu að hverfa til annarra starfa. Konur voru hlynntari afsögn þingmannanna en karlar. Þeir sem eru eldri en 50 ára eru umburðarlyndari gagnvart því að þingmennirnir séu áfram á þingi.
Af öllum flokkum þá voru þeir sem kusu í Miðflokkinn í síðustu alþingiskosningu, þeir sem síst vildu kalla eftir afsögn sexmenningana.