Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur fengið 23.447.944 krónur endurgreiddar vegna aksturskostnað frá árinu 2013. Þetta kemur fram á vef Alþingis en laun og kostnaðargreiðslur þingmanna voru birtar í gær.
Mest keyrði Ásmundur árið 2014 en þá fékk hann tæpar 5,4 milljónir endurgreiddar vegna aksturskostnaðar á eigin bifreið. Árið 2015 fór hann einnig yfir 5 milljóna króna markið en þá fékk hann rétt rúmlega 5 milljónir endurgreiddar. Árið 2016 fékk hann tæpar 4,9 milljónir fyrir aksturskostnað á eigin bifreið. Lægstu greiðslurnar vegna ferðakostnaðar á eigin bifreið fékk hann árið 2013 fyrir tímabilið 2013 til 2017 en þá fékk hann tæpar 3,2 milljónir endurgreiddar.
Á þessu ári hafa endurgreiðslur Ásmundar minnkað til muna en það sem af er ári eru þær rúmar 680 þúsund krónur fyrir ferðir á eigin bifreið og rúmar 820 þúsund fyrir ferðir með bílaleigubíl, eða samtals 1,5 milljónir.
Mikið var fjallað um akstur Ásmundar í byrjun árs en þann 9. febrúar síðastliðinn var upplýst um að hann væri sá þingmaður sem fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturskostnaðar í fyrra. Það þýðir að hann fékk um 385 þúsund krónur á mánuði í endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna keyrslu sinnar á síðasta ári. Alls keyrði Ásmundur 47.644 kílómetra í fyrra og fékk endurgreitt frá ríkinu vegna kostnaðar fyrir þann akstur.
Ásmundur sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 þegar fjallað var um málið á sínum tíma að hann keyrði 20 til 25 þúsund kílómetra á ári til að fara í vinnu. Hann sinni auk þess kjördæmi sínu, sem sé 700 kílómetra langt, afar vel. „Það líða ekki margar helgar sem ég hef frí frá því að sinna erindum í kjördæminu, fara út á meðal fólks, mæta á allskonar uppákomur og svo eru sumrin upptekin af allskonar bæjarhátíðum,“ sagði hann.
Hann sagðist í sama viðtali fara eitt hundrað prósent eftir öllum reglum og að hann hefði aldrei fengið athugasemd frá þinginu. Hann hefði haldið nákvæma dagbók þar sem finna megi yfirlit yfir það sem hann hefur gert í hverri ferð fyrir sig og hvern hann hefði hitt. Tíðar kosningar á undanförnum árum hefði auk þess kallað á aukin ferðalög. „Reglurnar eru bara þannig að þau erindi sem ég á við kjósendur sem þingmaður það er greitt.“
Í lok nóvember síðastliðins endurgreiddi Ásmundur skrifstofu Alþingis 178 þúsund krónur vegna ferða sem honum hafði verið endurgreiddar á síðasta ári. Þetta gerði hann vegna þess að honum hafi orðið það ljóst „að það gæti orkað tvímælis að blanda saman ferðum mínum um kjördæmið og ferðum á sama tíma með tökufólki ÍNN.“