Biðtími eftir sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum getur verið allt að sjö mánuðir hér á landi. Mikill munur er eftir landshlutum, lengsti biðtíminn á höfuðborgarsvæðinu er átta vikur en á Suðurnesjunum getur biðin verið allt að sjö mánuðir.
Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þingmanns Viðreisnar, um sálfræði- og geðlæknaþjónustu hér á landi.
Biðtími eftir sálfræðitíma margir mánuðir úti á landi
Á Suðurnesjum er bið eftir sálfræðiþjónustu fimm til sjö mánuður. Á biðlista bíða 79 manns en það sem af er ári hafa 597 einstaklingar nýtt sér sálfræðiþjónustu á Suðurnesjum. Svipaða sögu má segja um biðtímann á heilbrigðisstofnunum á Austurlandi og Vesturlandi en biðtími getur þar verið tveir til sex mánuðir. Á Austurlandi sóttu 267 manns sálfræðiþjónustu árið 2017 en biðtími eftir sálfræðitíma á heilbrigðisstofnun Austurlands er tveir til sex mánuðir. Á Vesturlandi er biðtíminn fyrir börn og ungmenni þrír til fjórir mánuðir og 37 börn eru á biðlista.
Á höfuðborgarsvæðinu hafa 2479 einstaklingar nýtt sér sálfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum það sem af er ári. Á árinu 2017 nýttu alls 2.351 einstaklingur sér sálfræðiþjónustu. Biðtími hjá aldurshópum sem eru yngri en 18 ára er oftast á bilinu núll til fjórar vikur en biðin getur verið allt að 8 vikur í einstaka heilsugæslustöðvum. Biðtími hjá þeim sem eldri eru er þrjár til átta vikur.
Ljóst að endurmeta þurfi sálfræðiþjónustu

Svandís segir jafnframt að við endurskoðun geðheilbrigðisáætlunar þá verði þjónusta sálfræðinga endurmetin. „Núgildandi geðheilbrigðisáætlun gildir út árið 2020 og er ljóst að við endurskoðun þeirrar áætlunar verður framboð á þjónustu sálfræðinga endurmetið í ljósi reynslunnar.“
Rúmlega 6000 einstaklingar undir 30 ára leitað til geðlækna síðustu tvö ár
Á árunum 2015 til 2017 leituðu samtals 6.299 einstaklingar undir 30 ára til geðlækna og barnageðlækna. Þannig leituðu 3.377 einstaklingar eftir þjónustu á árinu 2015, 3.453 á árinu 2016 og 3.447 á árinu 2017. Ekki er hægt að leggja saman fjölda einstaklinga milli ára því sami einstaklingur getur hafa leitað eftir þjónustu í meira en eitt ár.
Í upphafi árs 2018 voru 7392 einstaklingar á örorkubótum vegna andlegrar örorku. Það er aðeins hærri tala en var í upphafi árs 2017 og 2016. Í upphafi árs 2017 voru það 7.313 einstaklingar með örorkumat sem fyrsti sjúkdómsgreiningarflokkur var geðraskanir og í upphafi árs 2018 voru það 7.392 einstaklingar.