Hvorki Miðflokkurinn né Flokkur fólksins næði frambjóðendum sínum inn á þing samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Fylgi beggja flokkanna mælist nú undir fimm prósentum, fylgi Miðflokksins mælist 4,6 prósentum og fylgi Flokks fólksins 4,4 prósent. Könnun fór fram dagana 30. nóvember til 3. desember 2018.
Fjórir þingmenn Miðflokksins og tveir þingmenn Flokks fólksins tóku þátt í samræðum á Klausturbar þar sem þingmennirnir urðu uppvísir að því að svívirða aðra þingmenn, einkum konur, og minnihlutahópa á barnum Klaustur, þann 20. nóvember síðastliðinn. Málið hefur verið áberandi í fjölmiðlum að undanförnu.
Samfylkingin stærst
Samfylkingin mælist með mesta fylgið, eða 19,7 prósent. Píratar mælast með 15 prósent og Viðreisn með 13,4 prósent.
Af ríkisstjórnarflokkunum mælist Framsóknarflokkurinn með minnst eða tæp 9 prósent, Vinstri græn með 15 prósent og Sjálfstæðisflokkurinn 19,3 prósent.
Innan við helmingur þeirra sem kaus Miðflokkinn í síðustu kosningum myndi kjósa hann aftur
Maskína spurði hvaða flokk fólk myndi kjósa í dag og hvaða flokk það kaus í síðustu kosningum. Innan við helmingur þeirra sem segjast hafa kosið Miðflokkinn í síðustu kosningum ætlar að kjósa hann aftur nú, eða tæplega 49 prósent. Rúmlega 59 prósent þeirra sem kusu Flokk fólksins í síðustu kosningum myndu kjósa hann aftur nú.
Aðeins tæplega 61 prósent þeirra sem kusu Vinstrihreyfinguna – grænt framboð síðast myndu kjósa flokkinn aftur nú.
Hæsta hlutfall þeirra kjósenda sem myndu kjósa sama flokkinn aftur eru kjósendur Viðreisnar eða rúmlega 92 prósent. Hátt hlutfall kjósenda Framsóknarflokks, Samfylkingar, Pírata og Sjálfstæðisflokksins myndu kjósa þá aftur eða um 82 til 85 prósent kjósenda.
Fyrrverandi kjósendur Flokks fólksins myndu helst kjósa Pírata
Samkvæmt könnun Maskínu eru þeir kjósendur sem ekki ætla kjósa sama flokk og síðast frekar ráðvilltir en 19 til 25 prósent þeirra segjast ekki vita hvaða flokk þeir myndu kjósa nú. En af þeim sem vita hvað þeir ætla kjósa í staðinn þá ætla fyrrverandi kjósendur Flokks fólksins helst að kjósa Pírata, tæp 15 prósent, síðan Viðreisn, 11 prósent eða Framsóknarflokkinn 7,4 prósent.
Fyrrverandi kjósendur Miðflokksins myndu helst kjósa Flokk fólksins eða Framsóknarflokkinn, bæði 16, 3 prósent. Síðan myndu 11,6 prósent kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Fyrrverandi kjósendur Vinstri grænna hyggjast, að langstærstum hluta, kjósa Samfylkinguna eða 21, 5 prósent en rúmlega 10 prósent myndu kjósa Pírata.