Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, viðurkennir aðspurð að hún efist stundum um sjálfa sig og þann róttæka málstað sem hún hefur haldið á lofti. „Ég hef alveg átt svoleiðis stundir. Seint á kvöldin eða snemma á morgnanna. Það eru fyrir okkur mannfólkið mestu efasemdarstundirnar. Þá hef ég hugsað: „er ég kannski bara í ruglinu?“ En ég held að ég sé það sannarlega ekki.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við hana í þættinum 21 sem sýndur er á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Hægt er að sjá stiklu úr viðtalinu hér að neðan.
Sólveig Anna gengst við því að hafa komið inn í verkalýðsbaráttuna á óhefðbundin hátt. „Mín innkoma og ástæðan fyrir því að ég fer af stað er mótuð af minni tilveru og líka tilverunni sem ég deildi með mínum samstarfskonum. En þetta er sú tilvera sem verka- og láglaunafólki er boðið upp á. Auðvitað höfum við það misslæmt. En því miður, eftir því sem þetta kerfi sem hefur verið hér við lýði á Íslandi, eftir því sem það nær að festa tökin æ meira er óumflýjanlegt að fleiri fara inn í þetta líf og þegar við bætum svo við því ástandi sem hefur fengið að ríkja hér hömlulaust á húsnæðismarkaði þá versna lífskjör okkar enn meira.“
Sólveig Anna segir þessar niðurstöður sýna að þeir leigjendur sem hafi lægstu tekjurnar séu í verstri stöðu á húsnæðismarkaði. „. Þannig að þessi mynd sem er dregin upp af raunveruleika okkar, hún segir okkur það að við getum einfaldlega ekki beðið lengur. Að við verðum að ná að keyra í gegn nú alvöru lífskjarabætur.“