Marel lauk í dag við langtíma fjármögnun með útgáfu á Schuldschein bréfum að fjárhæð 140 milljónir evra (um 19,5 milljarðar íslenskra króna) með föstum og fljótandi vöxtum til fimm og sjö ára.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, en Marel er langsamlega verðmætasta félagið í kauphöll Íslands en verðmiðinn er í kringum 300 milljarða króna.
„Við erum afar ánægð með þann mikla áhuga sem fyrsta Schuldschein útgáfa Marel hefur fengið frá fjárfestum. Útgáfan endaði í 140 milljónum evra, en umframeftirspurn var eftir bréfunum sem staðfestir trú fjárfesta á traustum rekstri Marel og fjárhagsstyrk. Við erum þakklát fyrir það traust sem fjárfestar sýna með þessum hætti, en með útgáfunni fjölgum við stoðum í langtíma fjármögnun félagsins sem eykur sveiganleika í rekstri og styður við metnaðarfullar áætlanir um framtíðarvöxt og virðisaukningu,“ segir í tilkynningu frá Marel vegna fjármögnunarinnar.
Ítarlega var fjallað um starfsemi Marel í fréttaskýringu á vef Kjarnans á dögunum, en fyrirtækið vinnur nú að undirbúningi skráningar á erlendan markað og koma kauphallir í Kaupmannahöfn, Amsterdam og London til greina.
„Eins og tilkynnt var þann 31. október sl. var áætlað að gefa út 100 milljónir evra. Umframeftirspurn var eftir bréfunum, en í ljósi áhuga fjárfesta á traustum rekstri Marel og hagstæðra markaðsaðstæðna á fjármálamarkaði var útgáfan stækkuð í 140 milljónir evra. Langstærstur hluti útgáfunnar var til fimm ára með 110 punkta álagi yfir millibankavöxtum í evrum (EURIBOR) en sjö ára útgáfan var með 130 punkta álag yfir millibankavöxtum í evrum. Útgáfan var seld til fjölbreytts hóps fjárfesta á meginlandi Evrópu og Asíu.
„Við erum afar ánægð með þann mikla áhuga sem fyrsta Schuldschein útgáfa Marel hefur fengið frá fjárfestum. Útgáfan endaði í 140 milljónum evra, en umframeftirspurn var eftir bréfunum sem staðfestir trú fjárfesta á traustum rekstri Marel og fjárhagsstyrk. Við erum þakklát fyrir það traust sem fjárfestar sýna með þessum hætti, en með útgáfunni fjölgum við stoðum í langtíma fjármögnun félagsins sem eykur sveiganleika í rekstri og styður við metnaðarfullar áætlanir um framtíðarvöxt og virðisaukningu,“ segir Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri Marel, í tilkynningu.