Stéttarfélagið Efling hefur falið Stefáni Ólafssyni, sérfræðingur í vinnumarkaðs- og lífskjararannsóknum hjá Eflingu og prófessor í félagsfræði, og Indriða Þorlákssyni, fyrrverandi ríkisskattstjóra, að vinna skattatillögur sem félagið stefnir á að leggja fram í komandi kjaraviðræðum.
Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, vonast til þess að Alþýðusamband Íslands (ASÍ) muni gera tillögurnar að sínum. Þær munu liggja fyrir mjög fljótlega.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við hana í þættinum 21 sem sýndur er á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Hún segist ekki hafa setið mannmarga samráðsfundi aðila vinnumarkaðarins með stjórnvöldum sem hafa farið reglulega fram undanfarin misseri, en að það sem hún hafi heyrt af þeim gefi henni ekki mikla von um að lausnin á kjaradeilum sé á næsta leyti.
Sólveig Anna segist vonast til þess að tillögurnar liggi fyrir mjög fljótlega. „Við erum að vinna hratt og örugglega. Vonandi geta þær tillögur orðið tillögurnar sem ASÍ leggur fram. Það væri náttúrulega best ef að ASÍ gæti sameinast um að leggja fram þessar tillögur sem sínar.[...]Ég sit í miðstjórn ASÍ. Og í efnahags- og skattanefnd ASÍ og er mjög vongóð um að af þessu geti orðið.“