Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum héldu áfram að falla í dag, og féll hlutabréfavísitala Nasdaq um 3,05 prósent, sem telst vera mikil lækkun innan dags. Öllun hækkun sem hafði orðið á árinu hefur núna þurrkast út, og er ávöxtun miðað mið meðaltalsvísitölur nú neikvæð fyrir síðustu tólf mánuði.
Ein algengustu tíst Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í hans forsetatíð, hefur verið að benda á það að hlutabréfaverð hafi aldrei verið hærra á Wall Street ("Stocks are all time high") en það sést ekki mikið af því þessa dagana. Enda ekki tilefni til þess lengur.
Stock Market hit all time high on Friday. Congratulations U.S.A.!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 25, 2018
Í umfjöllun Wall Street Journal segir að undanfarin vika sé versta byrjun desember mánaðar á hlutabréfamarkaði í áratug, eða frá því í fjármálakreppunni sem alþjóðamarkaðir gengu þá í gegnum.
Meginástæða fyrir meiri neikvæðni meðal fjárfesta eru sagðar áhyggjur af því að tollastríð Bandaríkjanna og Kína muni hafa skaðleg áhrif á efnahag Bandaríkjanna og heimsbúskapinn einnig. Erik Davidson, aðalhagfræðingur Wells Fargo, segir í samtali við Wall Street Journal, að fjárfestar hræðist margt þessa dagana, ekki síst að stefnubreyting á sviði stjórnmála, t.d. þegar kemur að tollum eða Brexit, geti haft veruleg neikvæð áhrif á hlutabréfamarkaði.