Hvorki aðilar á vegum Indigo Partners eða WOW air munu tjá sig um þær viðræður sem eiga sér stað núna á milli félaganna, umfram það sem þegar hefur komið fram í fréttatilkynningum.
Þetta kemur fram í frétt á vefnum Túristi.is, en eins og kunnugt er þá kom stofnandi og stærsti eigandi Indigo Partners, hinn 81 árs gamli Bill Franke, til landsins á dögunum og átti fundi með Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda WOW air.
Í tilkynningu sem send var út eftir tveggja daga fundarhöld, kom fram að góður gangur hefði verið í viðræðunum.
Á vef Túrista var greint frá því á miðvikudagskvöld að Indigo Partners gæti eignast ríflegan meirihluta í WOW air jafnvel þó íslensk og evrópsk lög takmarki fjárfestingu aðila utan EES-svæðisins við minnihluta í íslenskum flugfélögum. „Indigo Partners gætu nefnilega búið þannig um hlutina að eignarhald þeirra í WOW air yrði að mestu leyti í breytanlegum skulda- og hlutabréfum. Félagið hefði þó ekki meirihluta atkvæða í stjórn flugfélagsins,“ segir í frétt Túrista.
Indigo Partners er með höfuðstöðvar í Arizona í Bandaríkjunum og hefur vaxið hratt frá stofnun 2003. Félagið er hluthafi í lággjaldaflugfélögum, og er meðal annars meðal eiganda Wizz Air.
WOW air tapaði 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi. Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri flugfélagsins.
Tekjur WOW air námu 501,4 milljónum dala, um 61,5 milljörðum króna, á fyrstu níu mánuðum ársins og jukust um 31 prósent frá sama tímabili í fyrra þegar þær voru 371,8 milljónir dala.
EBITDA félagsins fór úr því að vera jákvæð um 8,8 milljónir dollara fyrstu níu mánuði síðasta árs í að vera neikvæð um 18,9 milljónir nú, um 2,3 milljarða íslenskra króna.